Grallaraspóar á Alþingi

Sumarskapið hefur færst yfir þingheim.
Sumarskapið hefur færst yfir þingheim. Þorkell Þorkelsson

„Það gladdi óneitanlega grallaraspóann í sálinni á þessum sólskinsdegi að heyra hæstvirtan forsætisráðherra, þrátt fyrir þjóðmenningarlegar áherslur, nota orðið „soundbite“ í ræðustól,“ sagði Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Bjartar framtíðar, á Alþingi í dag.

Enskuslettan fyrrnefnda féll í svari Sigmundar Davíðs við fyrirspurn Helga Hjörvar um þjóðaratkvæðagreiðslur. „Við þekkjum þessa leiki háttvirts þingmanns Helga Hjörvar mjög vel, þetta eru tilraunir til að koma koma einni góðri setningu, soundbite, í fjölmiðla,“ sagði hann.

Einari K. Guðfinnssyni, forseta Alþingis, brá heldur í brún þegar hann áttaði sig á að slettan hefði fram hjá sér farið. „Það fór fram hjá forseta að forsætisráðherra hafi brugðið fyrir sig enskri tungu áðan,“ sagði Einar og áréttaði jafnframt að samkvæmt þingskaparlögum væri þingmálið íslenska.

„Herra forseti, okei, ég skil hvað þú ert að segja,“ svaraði Sigmundur glaður í bragði og fékk um leið áminningu frá forseta þar sem hann var beðinn um að íslenska ávarpsorð sín í upphafi. „Ég fagna því að forseti stóðst árvekniprófið sem ég lagði fyrir hann, eftir að hann missti af því þegar ég missti úr mér orð á erlendri tungu.“

Guðmundur Steingrímsson gerði tilraun til að halda glensinu áfram, en komst þó ekki langt. „Beauty-ið við fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar...“ Ekki komst hann lengra með ræðuna áður en forseti Alþingis skarst í leikinn og bað þingmenn um að láta af kjánaganginum.

„Ég aðhyllist reyndar frjálslynda nálgun á málverndarstefnu og tel það í lagi að grípa til nýyrða og jafnvel búa þau til í ræðustól,“ sagði Guðmundur að lokum. Þess má til gamans geta að Guðmundur er með BA-próf í íslensku frá Háskóla Íslands.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert