Verkefni til að bæta mannlíf styrkt

Fulltrúar þeirra hópa sem fengu styrki.
Fulltrúar þeirra hópa sem fengu styrki.

Þrettán verkefni hlutu styrk úr Hverfissjóði Reykjavíkur en tilgangur sjóðsins er að styðja við verkefni sem stuðla að bættu mannlífi, eflingu félagsauðs, fegurri ásýnd borgarhverfa, auknu öryggi í hverfum borgarinnar og samstarfi íbúa, félagasamtaka eða fyrirtækja við borgarstofnanir. Fimm milljónir króna voru veittar að þessu sinni. „Við viljum efla frumkvæði íbúa í hverfum borgarinnar,“ sagði Ólöf Örvarsdóttir sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar.

 Alls fengu fjórar umsóknir 600.000 króna styrk. Íþróttafélagið Leiknir og leikskólinn Ösp, Myndlistarskóli Reykjavíkur og samstarfshópur í Norðurmýrinni. Leiknir fékk styrk til að koma á fót námsveri fyrir börn sem stunda íþróttir hjá félaginu og leikskólinn Ösp til að efla félagsauð hjá innflytjendum. Samstarfshópur í Norðurmýrinni fékk styrk til að halda Norðurmýrarhátíð 2013 og Myndlistarskóli Reykjavíkur til að halda myndlistarnámskeið fyrir unglinga í Breiðholti. Þá fékk kvennaklúbburinn Skapótekið 500.000 króna styrk til tækjakaupa og kaupa á kennsluefni.

 Hollvinir Litla-Garðs og nágrennis fengu 310.000 kr. fyrir verkefnið Grænn og öruggur Haðarstígur. Foreldrafélag Háaleitisskóla fékk 300.000 til að halda Alþjóðahátíð Háaleitisskóla. Korpúlfar/félag eldri borgara í Grafarvogi 300.000 fyrir Fegrun Grafarvogs. Markaðsnefnd Íbúasamtaka Laugardals 300.000 til að halda Útimarkað Íbúasamtaka Laugardals 2013.      

 Íbúasamtökin Betra Breiðholt fengu 247.500 kr. fyrir verkefnið Hjólum saman á öllum aldri. Foreldrafélag Langholtsskóla 200.000  til að halda Umhverfisdag foreldrafélags Langholtsskóla og Björgunarsveitin Kjölur 50.000 kr fyrir Slysavarnir vegna sjósunds við Kjalarnes. Alls bárust 62 umsóknir og fór úthlutun fram í dag.

 Verkefnin eru af margvíslegum toga en eiga með markvissum hætti að efla og styðja tengsl milli aldurshópa, íþróttaiðkun, félagsauð minnihlutahópa, sköpunargáfu barna, félagslega þátttöku og mannlíf í hverfum borgarinnar.

 Hverfissjóður Reykjavíkurborgar byggir á samfélagssjóði SPRON sem var færður borginni til varðveislu og úthlutunar.  Tilgangur sjóðsins er að gera íbúum Reykjavíkurborgar kleift að hafa frumkvæði að hverfis-tengdum verkefnum. Úthlutað verður aftur úr sjóðnum vorið 2014.

 Umhverfis- og skipulagssvið hefur umsjón með sjóðnum og  stjórn hans sitja samkvæmt skipun borgarstjóra: Ólöf Örvarsdóttir, Óskar Dýrmundur Ólafsson og Jón Halldór Jónasson. Hreinn Ólafsson er stjórninni til aðstoðar. Verkefnastjóri sjóðsins er Þór Steinarsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert