Skiptar skoðanir um lengd námsins

Skiptar skoðanir eru á meðal kennaranema við Háskóla Íslands um lengd námsins. Árið 2008 voru sett lög um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Með lögunum voru bæði grunnskólakennaranámið og leikskólakennaranámið lengd úr þriggja ára BEd. námi yfir í fimm ára MA nám, en umræddar breytingar tóku gildi haustið 2011.

„Mér finnst þetta skiptast svolítið í tvennt. Sumir eru einmitt á þessu að þeir ætli ekki að halda áfram og svo eru margir, eins og ég, sem eru ákveðnir í því að þeir ætli bara í þetta starf að því að þetta er náttúrlega ótrúlega gefandi starf,“ segir Ólöf Rut Halldórsdóttir, formaður Kennó – nemendafélags kennaranema við Háskóla Íslands, aðspurð hvort mikil óánægja sé á meðal kennaranema með lengd námsins. Þá bendir hún á að á hinum Norðurlöndunum sé námið lengra en það var hér fyrir breytinguna. Þannig sé kennaranámið t.d. hátt í sjö ár í Finnlandi. „Ég veit að Finnland er mjög framarlega í skólamálum og þar eru kennarar líka ótrúlega mikils virtir í samfélaginu,“ segir Ólöf Rut.

Aðspurð um sína persónulegu skoðun á lengd námsins segir Ólöf Rut að hún hefði farið í þetta nám hvort sem það hefði verið lengt eða ekki. „En þá hefði ég kannski farið út á vettvang og kennt í kannski tvö til þrjú ár og komið svo til baka og farið í meistaranámið,“ segir Ólöf Rut og bætir við: „Þannig að fyrir mig breytti þetta kannski ekkert rosalega miklu þó svo að það sé auðvitað svekkjandi að leggja svona mikið á sig í námi, alveg fimm ár í háskólanámi á námslánum og leggja mikla vinnu á sig og koma svo út á vinnumarkaðinn ekki með kjör í samræmi við það sem maður hefur lagt á sig.“

Lengra nám en sömu laun

„Nú er ég með sama nám á bakinu og kennarar í skólum í dag. Svo fer ég í tveggja ára nám í viðbót og er ekki að fara fá neitt þannig séð auka fyrir það, eða maður hefur allavega þá tilfinningu. Síðan finnst mér ég ekki vera tilbúin til þess að sérhæfa mig í einhverju og hafa ekki unnið við það að kenna,“ segir Melkorka Kjartansdóttir, starfsmaður á leikskólanum Sunnufold, en hún útskrifaðist um síðustu helgi með BEd. gráðu í grunnskólakennaranámi við Háskóla Íslands og sér ekki fram á að fara í meistaranámið í haust.

Þá gagnrýnir Melkorka fyrirkomulag starfsnáms í kennaranáminu. „Í fyrsta lagi finnst mér að starfsnámið ætti að vera lengra í grunnnáminu. Eins og það var þá fórstu alltaf í sama skólann en eins og núna í mínu námi þá fór ég alltaf inn í mismunandi skóla, ég fór aldrei aftur til sama kennarans að hitta sömu krakkana,“ segir Melkorka. Aðspurð hvort hún þekki marga kennaranema sem ætli sér að sleppa meistaranáminu segist hún hafa heyrt eitthvað af slíku. „Svo eru alveg einhverjir sem ég þekki sem halda áfram beint en það eru þá yfirleitt þeir sem eru eldri, þ.e. þeir sem fara inn í kennaranám en hafa unnið sem kennarar áður,“ segir Melkorka.

Fögnuðu lengingunni

„Kennarasamband Íslands fagnar frumvarpinu og tekur heilshugar undir þau rök að tímabært sé að efla kennaramenntun og gera meistaragráðu eða sambærileg námslok að skilyrði fyrir veitingu leyfisbréfa leik-, grunn- og framhaldsskólakennara. Með því að jafnsetja skólastigin varðandi menntunarkröfur skipar Ísland sér í röð hinna framsýnustu meðal þjóðanna og vitnar efni frumvarpsins um skilning á mikilvægi þess að vel sé vandað til uppeldis og kennslu yngstu barnanna,“ sagði í umsögn Kennarasambandsins um frumvarpið sem varð að lögum um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert