Vonast til þess að lausn finnist á launadeilu

Unnið við myndgreiningu á Landspítalanum.
Unnið við myndgreiningu á Landspítalanum. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

„Það liggur fyrir að það séu minni peningar til á næstunni frekar en meiri,“ segir Björn Zoëga, forstjóri Landspítala, spurður að því hvort stjórnvöld hafi lýst yfir vilja til að leggja til fjármagn til að koma til móts við launakröfur geislafræðinga á spítalanum.

Í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag segir Björn liggja fyrir að geislafræðingar hafi gert meiri kröfur en aðrar stéttir sem spítalinn hefur átt í viðræðum við um endurnýjun stofnanasamninga en hvorki liggi fyrir um hvaða upphæðir sé að ræða né hvort viðræður um launahækkanir séu raunhæfar yfirhöfuð. Hann ítrekar að ekki sé um kjarasamningsviðræður að ræða.

Að óbreyttu munu fleiri en 40 geislafræðingar láta af störfum á spítalanum eftir rúman mánuð. Björn segir að verið sé að skoða ýmsa möguleika í stöðunni fari svo að þeir gangi allir út en að menn hafi ekki gefið upp vonina um að aðilar nái saman.

„Það er auðvitað rosalega erfitt að segja hvað gerist 1. ágúst en við erum bara í viðræðum og að reyna að ná saman um endurnýjaðan stofnanasamning. Sem vonandi leiðir til þess að viðkomandi einstaklingar dragi uppsagnir sínar til baka,“ segir hann.

Þarf tvo til að semja

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segir yfirvofandi uppsagnir geislafræðinga enn eitt áhyggjuefnið sem viðkemur Landspítalanum og öðrum heilbrigðisstofnunum sem bendi til þess að ákveðnir brestir séu í heilbrigðiskerfinu. Hann segir svigrúm spítalans lítið sem ekkert en ástandið sé langt í frá æskilegt.

„Það þarf tvo til að semja og ég vona svo sannarlega að menn nái saman, það er engin spurning um það.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert