Reykvíkingar sviknir um 90 sólskinsstundir

Regngallar voru vinsælar flíkur í höfuðborginni í júní.
Regngallar voru vinsælar flíkur í höfuðborginni í júní. mbl.is/Styrmir Kári

Þá er það staðfest: Nýliðinn júnímánuður var kaldari og blautari en gengur og gerist - og Reykvíkingar voru sviknir um 90 sólskinsstundir, sé miðað við meðaltal síðustu tíu ára.

 Tíðarfar í júní telst hagstætt að því undanskildu að sólarlítið var um landið suðvestanvert og úrkoma þar yfir meðallagi. Þurrt var um landið norðan- og austanvert.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í samantekt um veðrið í júní á vef Veðurstofu Íslands.

Meðalhiti mældist 9,9 stig í Reykjavík. Er það 0,9 stigum ofan meðaltals áranna 1961 til 1990 en 0,6 stigum undir meðallagi síðustu tíu júnímánaða. Júní 2011 var þó kaldari en nú. Óvenjuhlýtt var á Akureyri, meðalhitinn mældist 11,4 stig og hefur ekki verið svo hár í júní síðan 1953, eða í 60 ár. Frá því að samfelldar mælingar hófust á Akureyri 1881 hefur meðalhiti í júní verið hærri aðeins fimm sinnum. Einnig var óvenjuhlýtt um landið austanvert sem og á hálendinu. Meðalhiti á Höfn í Hornafirði mældist 10,1 stig og 7,3 á Hveravöllum.

Úrkoma

Úrkoma mældist 65,6 mm í Reykjavík í júní og er það 30 prósent umfram meðallag. Dagar þegar úrkoma mældist 1 mm eða meira voru 14 og eru það 3 umfram meðallag áranna 1961 til 1990, en 6 umfram meðalfjölda síðustu tíu ára. Úrkomudagar hafa ekki verið fleiri í júní í Reykjavík síðan 2003. Úrkoma á Akureyri mældist 8,1 mm og er það ríflegur fjórðungur meðalúrkomu í júní. Dagar þegar úrkoma mældist 1 mm eða meiri voru 4. Það er tveimur dögum minna en í meðalári.

 Sólskin

Óvenju sólarlítið var í Reykjavík í júní. Sólskinsstundirnar mældust aðeins 121,7 og er það 40 stundum undir meðallagi áranna 1961 til 1990 en 90 stundum undir meðaltali júnímánaða síðustu tíu ára (2003 til 2012). Svo sólarlítið hefur ekki verið í júní í Reykjavík síðan 1995, en tíu sinnum hafa sólskinsstundir mánaðarins þó orðið færri frá upphafi samfelldra sólskinsmælinga í Reykjavík 1923.

Aðeins örfáir góðviðrisdagar voru í Reykjavík í júní.
Aðeins örfáir góðviðrisdagar voru í Reykjavík í júní. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert