Kosið í stjórn RÚV og bankaráð Seðlabankans

mbl.is/Sigurður Bogi

Kosningar fara fram á Alþingi í dag bæði í stjórn Ríkisútvarpsins og bankaráð Seðlabanka Íslands auk Þingvallanefndar, kjörstjórna í landinu og nefndar um erlenda fjárfestingu. Frumvarp Illuga Gunnarssonar, mennta- og menningarmálaráðherra, um breytingar á lögum um Ríkisútvarpið varðandi val stjórnarmanna var samþykkt á Alþingi í gær en samkvæmt því er gert ráð fyrir því að Alþingi kjósi áfram stjórn þess.

Samþykkt voru breytt lög um Ríkisútvarpið í mars síðastliðnum í tíð fyrri ríkisstjórnar sem kváðu á um að formaður stjórnar væri valinn af ráðherra en fimm aðrir stjórnarmenn auk varamanna valdir af valnefnd sem skipuð væri af ráðherra, Alþingi, Bandalagi íslenskra listamanna og Samstarfsnefnd háskólastigsins. Auk þess skyldu starfsmenn Ríkisútvarpsins tilnefnda áheyrnarfulltrúa og varamann hans.

Lögin eftir breytingarnar í gær gera ráð fyrir því að kosin verði níu manna stjórn og jafnmargir til vara. Auk þess tilnefni starfsmannasamtök Ríkisútvarpsins einn áheyrnarfulltrúa og annan til vara með tillögurétt og málfrelsi í stjórninni en ekki atkvæðarétt. Fráfarandi stjórn Ríkisútvarpsins er skipuð fimm manns og jafnmörgum til vara. Formaður er Björg Eva Erlendsdóttir og varaformaður Margrét Frímannsdóttir, fangelsisstjóri á Litla-Hrauni og fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar.

Bankaráð Seðlabankans skipa sjö manns en núverandi formaður er Lára V. Júlíusdóttir hæstaréttarlögmaður og varaformaður er Ragnar Arnalds, rithöfundur og fyrrverandi fjármálaráðherra, sem fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert