Ferðamenn festast á gömlum vegi

Skýrt á að vera hver sé nú aðalvegurinn til Vopnafjarðar, …
Skýrt á að vera hver sé nú aðalvegurinn til Vopnafjarðar, en margir taka þó gamla veginn sem er lokaður og ófær. mbl.is/Gúna

„Ég hélt að þetta væri liðin tíð, það er búið að leggja nýjan veg til Vopnafjarðar, sem malbikaður var fyrir um tveimur árum. Sá vegur virðist hins vegar ekki kominn inn í leiðsögutæki og einhverra hluta vegna reynir fólk að fara gamla veginn þrátt fyrir að mörg skilti séu um að hann sé ófær, einungis af því að hann er enn merktur í leiðsögutækjunum,“ segir lögreglumaður á Egilsstöðum í samtali við mbl.is.

Lögreglumaðurinn hefur að undanförnu fengið fjölmargar tilkynningar um að fólk sé að festast á gamla veginum til Vopnafjarðar. Í flestum tilfellum er um að ræða erlenda ferðamenn en Íslendingar slysast einnig til að velja leiðina.

Fólk fylgir leiðsögutækjum en ekki merkingum á vegum

„Í fyrstu skilur fólk ekki hvers vegna það situr fast en áttar sig síðar á að við veginn voru skilti þeim til aðvörunar,“ segir lögreglumaðurinn. En umrædd aðvörunarskilti eru að hans sögn mjög skýr.

Vegurinn sem hefur verið opinn sem sumarvegur fyrir þá sem vilja skoða útsýnið við Bustarfell er hins vegar lokaður núna í annan endann vegna framkvæmda. En greinilegar merkingar eru við veginn þess efnis að þarna sé vinnusvæði og hann því lokaður.

„Það virðist vera að fólk keyri einungis eftir leiðsögutækjum og það beygi út af malbikaða aðalveginum til þess að fara þennan veg en í sumum tækjum er nýi malbikaði vegurinn ekki til.“ 

Ingvar B. Edvardsson er yfirverkstjóri Vegagerðarinnar á Vopnafirði. „Þetta er eins skýrt og það getur verið. En við erum alltaf að átta okkur á því að fólk hundsar vegnúmer og merkingar,“ segir hann en Ingvar hefur heyrt um ferðamenn sem brölta upp gamla veginn án þess að þar virðist vera einhver þjónusta eða umferð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert