Hiti gæti víða farið í 20 stig

Styrmir Kári

„Vonandi verður bara fínasti dagur og ætli hiti komist ekki víða upp í 20 stig,“ segir Þorsteinn V. Jónsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is en að sögn hans hefur þó aðeins dregið úr hitanum í nýjustu spám Veðurstofunnar.

Þeir sem staddir eru á Norður- og Norðausturlandi þurfa þó ekki að örvænta því veður verður einna best þar.

Þegar mbl.is náði tali af Þorsteini var mesti hiti á landinu á Skjaldþingsstöðum eða 15 stig. „Hitinn er nú ekki búinn að ná sér upp ennþá. Það eru 14 stig á Seyðisfirði og Egilsstöðum.“ Hiti mun hins vegar koma til með að hækka eitthvað þegar líður á daginn.

Veðurstofan gerir ráð fyrir skýjuðu veðri sunnan og vestan til en mestar líkur á heiðum himni í dag eru hins vegar á Norðausturlandi.

„Það verður bara þægilegur hiti víðast hvar á landinu og svo hlýnar enn frekar á morgun norðaustan til,“ segir Þorsteinn sem gerir ráð fyrir vel yfir 20 gráðum á því svæði. Í kvöld er svo hætt við lítilsháttar þokusudda á Vesturlandi.

Nánar má fræðast um veðrið á veðurvef mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert