Áður vandamál með lendingarbúnað

Vélin sem brotlenti á Keflavíkurflugvelli í morgun var að gerðinni Sukhoi Super-jet 100, en hún hefur verið í æfingarflugi hér á landi í nokkra daga. Hjól hennar fóru ekki niður þannig að flugvélin magalenti og rann út af brautinni. Fimm voru um borð. Einn ökklabrotnaði en aðrir sluppu ómeiddir. Vélin hefur verið hér á landi við æfinga- og reynsluflug á vegum framleiðandans í nokkrar vikur.

Að sögn Ragnars Guðmundssonar, rannsakanda hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa, er verið að ræða við áhöfn vélarinnar og skýrari mynd verður komin á orsök slyssins síðdegis í dag.

Vélar af sömu tegund hafa áður ratað í fjölmiðla sökum bilana í lendingarbúnaði, en í mars í 2012 tilkynnti Sukhoi að gera þyrfti við lendingarbúnað í öllum farþegaþotum sem framleiddar hefðu verið af gerðinni Sukhoi Superjet 100, sem þá voru sjö talsins. Þetta var í kjölfar þess að flugvél af þeirri gerð þurfti að nauðlenda í Moskvu vegna bilunar í lendingarbúnaði.

Flugvélin var afhjúpuð í Rússlandi þann 26. september 2007, en rússneska ríkisfyrirtækið Sukhoi hannaði þoturnar og smíðaði í samstarfi við vestræn fyrirtæki á borð við Boeing. Icelandair Group skoðaði vélarnar árið 2009, en ekki varð af pöntunum.

Þá brotlenti Sukhoi Superjet 100 vél í fjalllendi í Indónesíu í maí 2012, með þeim afleiðingum að allir um borð fórust. Talið var að slysið mætti rekja til mannlegra mistaka.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert