„Hálfvelgja sem túlka má sem hugleysi“

Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra.
Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Það á að kalla tafarlaust saman fund forsætisráðherra og sjávarútvegsráðherra Færeyja, Grænlands og Íslands til að móta sameiginlega stefnu um vernd lífsbjargarinnar í sjónum. Hér á ríkisstjórn Íslands að sýna frumkvæði í eigin þágu og nágrannaþjóða en ekki hálfvelgju sem túlka má sem hugleysi.“

Þetta segir Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, á vefsíðunni Evrópuvaktin í tilefni af viðtali Morgunblaðsins við Gunnar Braga Sveinsson utanríkisráðherra í dag. Þar sagði Gunnar aðspurður að það hefði ekki verið rætt innan ríkisstjórnarinnar að lýsa yfir stuðningi við Færeyinga vegna hótana Evrópusambandsins um refsiaðgerðir gagnvart Færeyjum vegna síld- og makrílveiða þeirra.

Gunnar sagði ennfremur að óþolandi væri að Evrópusambandið beitti smáríki hótunum í krafti stærðar sinnar. „Það er hins vegar ekki þar með sagt að við séum endilega sammála þeirri ákvörðun Færeyinga að auka [síld-]veiðarnar einhliða. Viðbrögð ESB eru hins vegar ekki til þess fallin að ljúka málinu eða setja það í farsælli farveg.“

Björn gagnrýnir ríkisstjórnina og forvera hennar fyrir framgöngu þeirra gagnvart Færeyingum og Grænlendingum. Þjóðirnar tvær hafi líkt og Íslendingar tekið sér einhliða makrílkvóta og Færeyingar einhliða síldarkvóta en íslensk stjórnvöld hins vegar hafu meðal annars verið treg til þess að leyfa löndun á grænlenskum makríl á Íslandi. Þá minnir hann á að Íslendingar og Færeyingar séu bandamenn í makríldeilunni.

Björn rifjar upp að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar segi að hún ætli „að vinna að því að Ísland verði leiðandi afl á norðurslóðum og virkur þátttakandi í vestnorrænu starfi“. Framgangan gagnvart Færeyjum og Grænlandi sé hins vegar ekki í samræmi við það markmið. Það sé „holur hljómur í afstöðu ríkisstjórnarinnar til síldardeilu Færeyinga“.

Pistill Björns Bjarnasonar í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert