Fá ekki að veiða makríl við Grænland

Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra segir að íslensk skip muni ekki fá leyfi til að veiða makríl í grænlenskri lögsögu á þessari vertíð. Hann segir að talsvert sé eftir af makrílkvótanum og því ætti flotinn að hafa næg verkefni í íslenskri lögsögu.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið ákvað í dag að heimili grænlenskum skipum að landa makríl hér á landi. Sigurður Ingi segist ekki óttast að þessi ákvörðun verði til að hleypa illu blóði í Evrópusambandið og Norðmenn sem hafa gagnrýnt makrílveiðar Íslendinga.

„Við teljum ekki ástæðu til að óttast að þetta hafi áhrif á viðræður okkar við ESB og Norðmenn um skiptingu makrílskvótans. Ég bendi á að við ætlum ekki sjálfir að standa fyrir þessum veiðum í grænlenskri lögsögu. Við erum þekktir Íslendingar fyrir ábyrgar veiðar. Þar sem ekki er búið að semja um stofninn og viðræðurnar eru á viðkvæmu stigi þá vildum við stíga varlega til jarðar og þar af leiðandi munum við ekki heimila íslenskum skipum veiðar í grænlenskri lögsögu.“

Grænlendingar tóku sér upphaflega 15.000 þúsund tonna makrílkvóta, en hafa núna aukið hann í 30.000 tonn.

Hvetur Grænlendinga til að nýta makrílinn til manneldis

Sigurður Ingi segir að íslensk stjórnvöld geti ekki sett skilyrði um nýtingu á makríl sem grænlensk skip veiða. „Ég hef hvatt grænlenska sjávarútvegsráðherrann í bréfi og eins símleiðis, að stuðla að því að aflinn verði í auknum mæli nýttur til manneldis. Hann tók vel undir það.“

Sigurður Ingi segir að Grænlendingar séu í svipaðri stöðu og Íslendingar voru í fyrir nokkrum árum þegar makríllinn hóf að ganga í íslenska lögsögu. Þeir séu að skapa sér samningsstöðu. „Við ákváðum m.a. á grundvelli stjórnarsáttmálans, þar sem kveðið er á um að við eigum að vera virkir þátttakendur í Vestnorrænu-samstarfi [Íslendinga, Grænlendinga og Færeyinga], að við myndum koma Grænlendingum til aðstoðar. Landfræðilegar aðstæður eru þannig á A-Grænlandi að þeir eiga mjög erfitt að nýta þessi tækifæri vegna hafnleysis. Ég ákvað því að nýta þá heimild sem ég hef í lögum að færa samninginn út úr þessum 12.000 tonnum og heimila áframhaldandi landanir grænlenskra skipa á makríl á Íslandi á þessari vertíð.“

Sigurður Ingi tók fram að þessi ákvörðun gilt aðeins fyrir þessa vertíð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert