Alvöru kassabílarall fyrir krakka

Kassabílarnir mega vera af öllum stærðum og gerðum. Hér ýtir …
Kassabílarnir mega vera af öllum stærðum og gerðum. Hér ýtir Jóhann Árni Gunnarsson Emmu Kristínu Guðmundsdóttur eftir einnig brautinni í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum. Morgunblaðið/Eggert

Ný viðmið verða sett í kassabílaralli í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum 18. ágúst næstkomandi þegar keppt verður samkvæmt sömu reglum og tíðkast í alvöru rallaksturskeppnum hér á landi. Keppt verður á sex sérleiðum og geta allt að hundrað lið tekið þátt.

Bifreiðaíþróttaklúbbur Reykjavíkur stendur fyrir kassabílarallinu í samstarfi við Reykjavíkurborg og ÍTR. Keppt verður í þremur aldursflokkum og geta krakkar á aldrinum 4-12 ára tekið þátt. Þó er einnig sérstakur heildarflokkur þar sem keppendur á öllum aldri mega spreyta sig.

Pétur Sigurbjörn Pétursson, einn aðstandenda keppninnar, segir undirtektirnar vonum fremri. Skráningu ljúki á miðvikudaginn næstkomandi og því sé um að gera skrá sig sem fyrst og hefjast handa við að smíða bíl, ef hann er ekki þegar til. „Það er svo einfalt að smíða kassabíl að það geta allir verið með, þetta eru nokkrar spýtur og skrúfur, jafnvel hjól undan ónýtu grilli. Þá erum við einnig með nákvæmar leiðbeiningar inni á vefsvæði keppninnar þannig að kunnáttuleysi er engin afsökun.“

Auk þess sem veitt verða verðlaun fyrir fyrstu þrjú sætin í hverjum flokki verður flottasti bíllinn einnig valinn.

Um er að ræða frumraun þar sem kassabílarall er með alvöru keppnisreglum en ætlunin er að keppnin verði árlegur viðburður. „Þetta verður sett upp nákvæmlega eins og alvöru rallkeppni. Keppendur mæta klukkan níu og þá er keppnisskoðun bifreiða, farið verður yfir bílana og starfsmenn eru með tæki og tól ef lappa þarf aðeins upp á þá. Svo er brautarskoðun og keppt klukkan ellefu. Fyrir hádegi verða þrjár sérleiðir eknar og aftur þrjár leiðir eftir hádegið.“

Pétur segir að Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn henti einkar vel fyrir keppni sem þessa. Þarna séu þrjár góðar og mismunandi brautir sem reyna á alla eiginleika liðanna.

Þrír eru í hverju liði, ökumaður og tveir sem ýta. Þar sem hins vegar eru eknar sex leiðir er fyrirkomulagið þannig að hver og einn keppandi stýrir á tveimur leiðum. Allir liðsmenn hafi því jafnt vægi.

Á vefsvæði keppninnar má finna allar upplýsingar um reglur keppninnar, sem eru ýtarlegar, auk þess sem lið verða að skrá sig til keppni í gegnum vefsvæðið. 

Vefsvæði Kassabílarallsins

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert