11 í fangageymslum eftir nóttina

mbl.is/Eggert

Töluverður erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt og mikið um tilkynningar um hávaða frá tónlist og vegna ölvunar í heimahúsum. Lögregla hafði afskipti af tveimur unglingateitum í Austurbænum og einu í miðborginin. 11 sofa nú úr sér í fangageymslu, þar af 3 sem voru ölvaðir og óskuðu sjálfir eftir gistingu.

Um tíuleytið í gærkvöldi var lögreglu tilkynnt að tveir menn hefðu brotið rúðu á íbúðarhúsi í miðborg Reykjavíkur og annar þeirra farið inn. Mennirnir voru báðir handteknir skömmu síðar. Annar þeirra var í mjög annarlegu ástandi og var hann vistaður í fangageymslu meðan ástand hans lagaðist. Hinn var í góðu ástandi að sögn lögreglu, rætt var við hann og honum svo sleppt. Engu var stolið úr íbúðinni.

Skömmu eftir miðnætti var tilkynnt um líkamsárás í miðborginni. Þar kvaðst maður vera aumur eftir átök við dyraverði á veitingahúsi. Honum var fylgt til aðhlynningar á slysadeild.

Um tvöleytið voru tveir menn handteknir á Lækjartorgi grunaðir um líkamsárás. Þeir voru í annarlegu ástandi að sögn lögreglu og eru vistaðir í fangageymslu þar til hægt verður að ræða við þá. Maðurinn sem ráðist var á var fluttur á slysadeild til aðhlynningar.

Klukkan rúmlega þrjú í nótt var maður handtekinn við veitingahús í borginni. Kvartað hafði verið undan honum og þegar lögreglumenn komu á vettvang veittist hann að þeim. Hann er vistaður í fangageymslu á meðan ástand hans lagast.

Um hálffjögur var maður handtekinn á Miðbakka. Hann var ölvaður og í miðju kafi að skemma bíl, sem líklega er þó hans eign að sögn lögreglu. Hann er vistaður í fangageymslu meðan ástand hans lagast.

Þá var einn ökumaður stöðvaður í Hafnarfirði í nótt, vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna. Farþegi í bílnum var í kjölfarið kærður fyrir vörslu fíkniefna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka