Ísjakarnir geta splundrast

Ísjakar geta verið stórhættulegir.
Ísjakar geta verið stórhættulegir. mbl.is/Kristján

Landhelgisgæslunni barst snemma í morgun tilkynning frá skipi um tvo borgarísjaka sem eru staðsettir um 40 sjómílur norður af Skagatá. Annar jakinn er mjög stór. Hann er ekki sagður mjög hár en hann er  hins vegar um 300 metrar í þvermál. Gæslan hefur sent sjófarendum siglingaviðvörun.

Mikil hætta getur skapast sigli menn of nærri því jakarnir geta splundrast og þá leysast miklir kraftar úr læðingi. Varðstjóri hjá Gæslunni segir að þetta sé nánast eins og sprenging og molar fari í allar áttir.

Minni jakinn er sagður vera á stærð við togara. 

Íshrafl er við stærri jakann til norðausturs sem rekur til suðausturs á um 1,2 hnúta hraða.

Ekki hefur sést til ísbjarna að sögn Gæslunnar.

Gæslan sagði svo frá því á vef sínum í gær, að margar tilkynningar hafi borist að undanförnu um hafís og borgarísjaka á Grænlandssundi. Siglingaviðvaranir voru sendar út til báta og skipa á svæðinu auk þess sem staðsetningar birtast á vef Veðurstofu Íslands.

Í fyrradag hafði bátur samband við stjórnstöð LHG sem var staðsettur í grennd við 40 metra háan borgarísjaka sem var strandaður rétt utan við Hornbjarg á Vestfjörðum. Skömmu síðar hafði skipstjóri aftur samband og hafði hann þá skyndilega séð borgarísjakann „splundrast“. Mikið hrafl og molar dreifðist um svæðið og eftir stóðu tveir stórir ísjakar, „annar þeirra valt og lyftist“.

Í kjölfarið las stjórnstöðin út siglingaviðvörun en talið er að margir bátar muni eiga leið um svæðið næstu daga.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert