Minni veðuránægja í ár

Rigningardagur í borginni
Rigningardagur í borginni mbl.is/Ómar Óskarsson

Töluvert minni ánægja er með veðrið í sumar en í fyrra, samkvæmt nýrri skoðanakönnun MMR. Það eru íbúar í Norðausturkjördæmi sem eru ánægðastir með veðrið í sumar en lítil ánægja er með veðrið meðal íbúa höfuðborgarsvæðisins.

Könnunin var gerð dagana 9. til 14. ágúst 2013 og var heildarfjöldi svarenda 914 einstaklingar, 18 ára og eldri.

Af þeim sem tóku afstöðu sögðu 86,6% þeirra sem búsett voru í Norðausturkjördæmi að þau væru ánægð með veðrið í sumar, 57% þeirra sem búsett í Norðvesturkjördæmi sögðust vera ánægð með veðrið í sumar, 38,3% þeirra sem búsett voru í Suðurkjördæmi, 38,2% þeirra sem búsett voru í Reykjavíkurkjördæmunum og 28,4% þeirra sem búsett voru í Suðvesturkjördæmi voru ánægð með veðrið í sumar.

Nokkur munur var á ánægju með veðrið í sumar á milli hópa. Karlar voru frekar ánægðir með veðrið en konur. Ánægja með veðrið jókst með hækkuðum aldri og Framsóknarfólk var líklegra til að vera ánægt með veðrið en stuðningsfólk annarra flokka.

Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 49,8% karla vera ánægðir með veðrið í sumar, borið saman við 39,9% kvenna.

58,7% þeirra sem tilheyrðu elsta aldurshópnum (68 ára og eldri) sögðust vera ánægð með veðrið í sumar, borið saman við 40,5% þeirra sem tilheyrðu yngsta aldurshópnum (18-29 ára).

61,7% þeirra sem bjuggu á landsbyggðinni sögðust vera ánægð með veðrið, borið saman við 33,8% þeirra sem bjuggu á höfuðborgarsvæðinu.

Þegar niðurstöður eru skoðaðar eftir stuðningi við stjórnmálaflokka má sjá að hlutfallslega mest ánægja með veðrið í sumar ríkti meðal Framsóknarfólks en minnst ánægja með veðrið ríkti meðal stuðningsfólks Bjartrar framtíðar. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 53,2% Framsóknarmanna vera ánægðir með veðrið í sumar, borið saman við 35,0% þeirra sem studdu Bjarta framtíð.

Sjá nánar á vef MMR

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert