Missti algjörlega stjórn á sér

Úr safni.
Úr safni. mbl.is/Jakob Fannar

Fjórir lögreglumenn urðu að leita aðhlynningar á slysadeild eftir að æði rann á ungan karlmann sem lögreglan hafði afskipti af í miðborg Reykjavíkur um sl. helgi. Erfiðlega gekk að hemja manninn, sem var grunaður um fíkniefnamisferli, og var óskað eftir aðstoð við handtökuna.

Kristján Ólafur Guðnason, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við mbl.is að svona atvik heyri til undantekninga. 

Lögreglumenn höfðu afskipti af karlmanni á þrítugsaldri á þriðja tímanum aðfaranótt laugardags. Maðurinn, sem er góðkunningi lögreglunnar, var einn á ferð og lék grunur á að hann væri undir áhrifum fíkniefna. Lögreglumenn tóku hann tali og þá kom í ljós að hann reyndist vera undir áhrifum og var hann jafnframt með fíkniefni í sínum fórum. Um neysluskammta var að ræða.

„Það verður til þess að hann missir algjörlega stjórn á sér,“ segir Kristján og bætir við að maðurinn hafi reynt að losa sig við fíkniefnin. Þá gerði lögreglan tilraun til að stöðva manninn en hann varðist handtöku. Á þessum tímapunkti var maðurinn orðinn stjórnlaus að sögn Kristjáns.

„Það eru fjórir lögreglumenn sem eru tognaðir og marðir eftir þetta,“ segir Kristján ennfremur. 

Maðurinn var að lokum handtekinn og færður í fangaklefa. Hann hefur margoft komið við sögu lögreglu áður í tengslum við ýmis mál, m.a. fíkniefna- og ofbeldismál. Manninum hefur nú verið sleppt úr haldi og er mál hans til meðferðar hjá ákæruvaldinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert