Smala í kappi við tímann og veðrið

Settar réttardagsetningar riðlast víða á Norðurlandi í ar vegna væntanlegs …
Settar réttardagsetningar riðlast víða á Norðurlandi í ar vegna væntanlegs óveðurs. mbl.is/Golli

Sauðfjárbændur í Grýtubakkahreppi tóku þá ákvörðun í kvöld að hefja göngur í fyrramálið og reyna að ná sem mestu fé heim í tún áður en illviðri skellur á um helgina. Í Skagafirði og á Þeistareykjum verður göngum sömuleiðis flýtt og lagt í hann á miðvikudag. Ekki stóð til að smala fyrr en í september.

Almannavarnir fylgjast náið með framvindu mála á Norðurlandi og hafa almannavarnarnefndir víða fundað með fjallskilanefndum í kvöld. Útlit er fyrir að réttardagsetningar Norðanlands riðlist víða vegna veðursins.

Spáin versnar ef eitthvað er

„Það eru 90% líkur á því að við förum á morgun, þetta er bara að versna frekar en hitt,“ segir Þórarinn Ingi Pétursson, bóndi á Grýtubakka og formaður Landssamtaka sauðfjárbænda.

Fjallskilanefndir funduðu víða á Norðurlandi í kvöld vegna norðanhvellsins sem er í kortunum á föstudag og laugardag. Spáin hefur síst skánað frá því Veðurstofa Íslands vakti fyrst athygli á því að von væri á mjög slæmu veðri í lok vikunnar.

Á föstudag gengur í norðan og norðvestan 18-23 m/s. Mikil rigning verður á N-verðu landinu, en slydda eða snjókoma síðdegis 150-250 metrum yfir sjávarmáli. Á laugardag er von á norðvestan 20-25 m/s og úrhelli á láglendi N- og A-lands að morgni, en mikilli slyddu eða snjókomu til fjalla.

Réttað í pollagöllum á föstudag

Þórarinn Ingi segir að í Grýtubakkahreppi sé stefnt að því að halda til fjalla klukkan 10 í fyrramálið að óbreyttu. Vel hefur gengið að ræsa út mannskap og að sögn Þórarins kasta menn öllu öðru frá sér á meðan.

„Við erum komin með um 90% af þeim mannskap sem við þurfum fyrir það svæði sem við ætlum að fara. Þetta eru menn sem eru í fullri vinnu við annað sem stökkva til,“ segir Þórarinn.

Áhersla verður lögð á eyðisveitirnar norðan Leirdalsheiðar, Fjörðurnar og Keflavík, en Látraströnd og svæðin nær byggð látin bíða. „Því ef það snjóar á heiðinni áður en við náum þeim þá erum við í tómu veseni,“ segir Þórarinn.

Bændur eru í kappi við tímann, það tekur nokkra daga að smala á þessu svæði og er stefnt að því að koma aftur heim með sem mest af fénu á fimmtudagskvöld. „Svo verður bara réttað í pollagöllum á föstudag, það verður bara að hafa það,“ segir Þórarinn.

Fer eftir veðri hvenær réttað verður í Skagafirði

Í gamla Seyluhreppnum í Skagafirði verður farið í Fellin svonefndu á miðvikudag en aðalgöngunum um Staðarfjöllin hefur verið flýtt fram á fimmtudag. Áður hafði staðið til að göngur hæfust 7. september. 

„Ef veður leyfir þá verður réttað á föstudagsmorgun en annars verður það látið bíða fram yfir helgina,“ segir séra Gísli Gunnarsson í Glaumbæ.

„Við erum heppin hér á þessu svæði að þetta eru ekki svo langar göngur þannig að við ættum að ná þessu. Það eina er að við verðum kannski ekki eins vel mönnuð og ef þetta væri um helgi, en það fara allir sem geta.“

Ætla ekki að láta söguna endurtaka sig

Þeistareykjasvæðið fór hvað verst út úr óveðrinu í september í fyrra. Þar var í kvöld ákveðið að flýta göngum og leggja í hann á miðvikudag. „Við ætlum ekki að brenna okkur á þessu aftur,“ segir Árni Þorbergsson, bóndi í Brúnahlíð í Aðaldal.

Hann segir bændur hafa vaðið fyrir neðan sig. Almannavarnarnefnd hafi fundað með fjallskilastjórum á svæðinu í kvöld og farið yfir nýjustu spár, sem séu jafnvel heldur verri en fyrstu spár. Árni segir að ágætlega gangi að kalla gangnamennina út þótt fyrirvarinn sé stuttur.

„Við smölum á miðvikudag og fimmtudag og ætlum að sjá til hvað við komumst langt, hvort við náum að reka niður á föstudag. Þetta er venjulega tveggja daga verk hjá okkur og svo rekstur á þriðja degi, en við erum að pæla hvort við náum að reka lengra á þessum tveimur dögum til að ná þessu allavega niður fyrir snjólínu. En það fer eftir því hvernig gengur.“

Bændur á tánum vegna illviðriðsspár

Svona var umhorfs þegar Sigrún Óladóttir bóndi í Brúnahlíð í …
Svona var umhorfs þegar Sigrún Óladóttir bóndi í Brúnahlíð í Aðaldal rak fé við Þeistareykjaskála eftir norðanhvellinn í fyrrahaust. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert