Hafði fé af fólki með svikum og prettum

mbl.is/Kristinn Freyr Jörundsson

Lögreglan á Akureyri hefur upplýst stórfellt svindlmál þar sem Akureyringur á þrítugsaldri hefur haft hundruð þúsunda af almennum borgurum með svikum og prettum. Alls ræðir um 10-12 mál. Þetta kemur fram á vef Akureyri vikublaðs.

Þar segir, að maðurinn hafi þóst eiga ýmis tæki til sölu; síma, tölvur, varahluti, dekk og fleira. Stundum hafi „viðskiptin“ verið auglýst á vefsíðum en stundum hafi  maður þekkt mann og gylliboð um ódýr tæki orðið til þess að borgarar hafa lagt fé inn á reikning mannsins án þess að fá nokkru sinni vöruna í hendur. Maðurinn lofaði gjarnan að hann myndi skutlast sjálfur með vöruna til viðtakanda eftir að búið væri að leggja inn á reikning hans. Aldrei virðist um raunverulega söluvöru hafa verið að ræða.

Haft er eftir Gunnari Jóhannssyni, yfirmanni rannsóknardeildar lögreglunnar á Akureyri, að um öll viðskipti skuli gilda að fólk hitti seljandann augliti til auglitis og sjái vöruna með eigin augum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert