Auknar fjárfestingar í forgang

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er af og frá að það standi til að kippa stoðunum undan mikilvægum eftirlitsstofnunum í landinu. Það er af og frá. Hins vegar er það svo að margar eftirlitsstofnanir voru styrktar mjög verulega beinlínis í þeim tilgangi að taka á þeim atburðum sem hér urðu haustið 2008 og þær þurfti að styrkja til þess að bæði rannsaka mál og endurskoða bæði verklag og ferla, lög og reglur tímabundið.“

Þetta sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, í umræðum á Alþingi í dag um munnlega skýrslu forsætisráðherra um störf ríkisstjórnarinnar. Nú væri hins vegar árið 2013 og það hlyti að vera samstaða um að vinna í þá átt að finna jafnvægi varðandi það hvert umfang eftirlitsstofnana ætti að vera til framtíðar. Það væri ekki umræða sem snerist um að kippa stoðunum undan slíkum stofnunum heldur hvar nýtt jafnvægi í þeim efnum væri að finna.

Ráðherrann sagði athyglisvert hversu lítið væri rætt um stöðu ríkissjóðs í umræðunni. Látið væri eins og til væri fjármagn í allt það sem vilji væri til þess að gera. Því miður væri það ekki rétt. Viðskilnaður fyrri ríkisstjórnar væri ekki sá sem að hefði verið stefnt. Þrátt fyrir að fjárlög hennar hefðu gert ráð fyrir þriggja milljarða króna halla stefndi í að hallinn yrði 30 milljarðar á yfirstandandi ári.

13% minni fjárfestingar að raungildi

Þannig hefði fjárfestingaáætlun fyrri ríkisstjórnar verið illa fjármögnuð og hefði átt að byggja á tekjum sem koma áttu einhvern tímann í framtíðinni, eignasölu sem hefði verið óraunhæf og aldrei gengið eftir og arði sem aldrei hefði skilað sér. Það hefði hins vegar verið létt verk að setja saman áætlunina, ráðstafa henni inn á kjörtímabilið sem nú væri hafið og kvarta síðan yfir því að ekki væri staðið við hana.

Bjarni sagði að honum sýndist 30 milljarða króna halli á ríkissjóði blasa við sem væri að hluta til vegna ákvarðana fyrri ríkisstjórnar sem teknar voru eftir að síðustu fjárlög voru samþykkt og að hluta til vegna þess að hagvöxtur hefði verið veikari en vænst hefði verið einkum vegna lítillar eftirspurnar. Fjárfestingar á fyrstu sex mánuðum á þessa árs hefðu þannig til að mynda verið 13% minni að raungildi miðað við sama tíma í fyrra.

„Þess vegna er það eitt af forgangsverkefnum nýrrar ríkisstjórnar að grípa til aðgerða sem geta laðað fram nýja fjárfestingu í atvinnulífinu, fjárfestingu sem mun skila verðmætari störfum, aukinni framleiðni og færa okkur framar í samkeppnishæfni borið saman við aðrar þjóðir,“ sagði hann ennfremur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert