Skipið í lagi þrátt fyrir skemmda brú

Á fundi IntraPoint í morgun sagði Geir að þótt brúin …
Á fundi IntraPoint í morgun sagði Geir að þótt brúin á skipinu Íslandi hefði skemmst, þá væri enn í lagið með vélina og skipið. mbl.is/Kristinn

Þótt að brú skipsins hafi verið skemmd, þá var skipið enn í lagi og bæði skrokkurinn og vélin héldu. Þetta sagði Geir H. Haarde um það hvaða áhrif bankakreppan hafði á íslenskt samfélag og efnahagslíf á fundi fyrirtækisins IntraPoint, sem sérhæfir sig í krísu- og áfallastjórnun. Geir fór um víðan völl en sagði að það hefði ekki verið síður mikilvægt hvað ríkisstjórnin ákvað að gera ekki en það sem hún ákvað að gera.

Mikilvægast að ábyrgjast ekki skuldirnar

Mikilvægasta atriðið sagði Geir að hafi verið að ábyrgjast ekki skuldbindingar bankakerfisins, en það hefði getað haft skelfilegar afleiðingar. Í dag stefni í að þrot bankanna muni kosta um 180 milljarða Bandaríkjadali, en það er um tíföld landsframleiðsla. Þá sé ekki útlit fyrir að nema um 25-30% komi upp í kröfur.

„Við sögðum við kröfuhafa að þeir fengju ekki greitt frá ríkisstjórninni. Það var ekki vinsælt hjá kröfuhöfum og var nokkuð óvenjulegt í alþjóðlegu samhengi. Þannig hefði til dæmis Írland samþykkt að gera slíkt,“ sagði Geir, en hann ítrekaði að kröfuhafarnir ættu að bera ábyrgð á því að lána óábyrgt.

Mikið kappsmál að koma í veg fyrir hrun greiðslukerfisins

Geir sagði að það hafi verið gífurlega mikilvægt að halda innviðunum gangandi. Þannig hafi náð að halda greiðslukerfinu uppi og bankar hafi ekki lokað dyrum sínum á venjulegar millifærslur eða bankaviðskipti. Það hafi þó verið mikið um misskilning, sérstaklega erlendis frá og oft hafi hann fengið spurningar um það af hverju bílar væru á götunum, af hverju til væri bensín og af hverju matur væri enn í hillum verslana. Margir hefðu gert ráð fyrir því að höftin myndu leiða til vöruskorts, en það hafi verið kappsmál að slíkt gerðist ekki og koma í veg fyrir möguleg uppþot vegna þess.

Gekk vel í heildina

Í heild sagði Geir að krísustjórnunin kringum hrunið hafi gengið vel, en öll kerfi ríkisstjórnarinnar hafi virkað, enginn hafi týnt lífi og grunn atvinnuvegir þjóðarinnar hafi enn verið í gangi. Reyndar hafi útflutningsgreinarnar blómstrað eftir hrun, ef frá er talinn álgeirinn sem hafi þurft að glíma við lágt verð á heimsmarkaði.

Menn dönsuðu á línunni

Geir sagði að auðvitað hafi ákveðin hegðun ýtt undir áhrifin hér á landi í kjölfar alþjóðlegu kreppunnar. Þar hafi sérstaklega verið um að ræða áhættusama hegðun bankanna. Hann dró þó ekki úr ábyrgð ríkisstjórnarinnar og sagði að mörg áhættuljós hafi kviknað sem hann og aðrir hefðu mátt taka meira mark á. Hann sagði þó að helsta ástæðan væru bankarnir og þar væru margir sem hefðu dansað á línunni um að brjóta lög. Hann væri þó ekki dómari í þeim málum og gæti ekki dæmt menn.

Viðbragðsáætlun skipt upp í þrennt

Á ráðstefnunni var rætt um viðbrögð við áföllum og skipti Geir viðbrögðum hér á landi í þrennt. Í fyrsta lagi hafi verið skammtímamarkmið um að takmarkað skemmdir. Þannig hafi hann farið í sjónvarpsávarp þar sem hann gerði grein fyrir hversu alvarlegir hlutirnir væru, án þess að segja að bankarnir myndu falla. Þá hafi mikið verið lagt í viðtöl við erlenda miðla og svo hafi neyðarlögin verið samþykkt þar sem innistæður fengu forgang.

Í framhaldinu hafi Fjármálaeftirlitið fengið heimild til að taka bankana yfir og þrjá daga í röð féllu bankarnir hver af öðrum. Þá hafi verið gefin út yfirlýsing frá ríkisstjórninni um að staðið yrði á bakvið allar innistæður. Það hafi verið hugsað til að hafa „sálræn áhrif“, en ekki hafi verið nein formleg undirritun á bakvið slíkt. Með þessu öllu hafi náðst að bjarga innlenda bankakerfinu.

Í öðru lagi hafi verið viðbrögð til miðlungs langs tíma. Þau hafi helst snúist um samstarfið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, að snúa hlutunum við og útfærslu á fjármagnshöftunum. Að lokum hafi þurft að bregðast við langtímamálum, eins og að koma á góðu rekstrarumhverfi og efla samkeppnishæfi landsins. Þá hafi þurft að koma böndum á verðbólgu og minnka atvinnuleysi.

Sagði Svía hafa staðið saman á pólitíska vettvanginum

Geir sagði að í kjölfarið á fjármálahruninu hafi þó fljótlega komið upp stjórnmálaleg krísa þar sem stjórnvöld hafi tapað meirihluta og ný stjórn tekið við. Þetta sagði hann vera öðruvísi en til dæmis í Svíþjóð á tíunda áratug síðustu aldar þegar stjórnmálaflokkarnir tóku sig saman um að ýta til hliðar öllum ágreiningi og vinna að því að leysa vandamálin sem væru framundan.

Geir var í lok fyrirlestrarins spurður út í hvort eitthvað hefði mátt gera betur á þessum tíma og sagði hann að auðvitað hefði svo mátt vera. Aftur á móti teldi hann að í stóra samhenginu hafi réttar ákvarðanir verið teknar. Hann tók þó fram að ef hann gæti gert suma hluti aftur, þá myndi hann ekki láta ljúga aftur svona miklu að sér.

„Svarta bókin“ aldrei skoðuð

Þá sagði hann að oft hefðu spurningar komið upp um það af hverju ekki væri til handbók varðandi viðbrögð við svona kreppum. Vandamálið væri reyndar að engar kreppur væru eins og því væru slíkar handbækur ekki endilega gagnlegar í öllum tilvikum. Hann benti reyndar eftir á hefði komið í ljós að til væri svokölluð „svört bók“ hjá Seðlabankanum sem væri handbók í krísustjórnun. Hún hefði aftur á móti aldrei verið tekin upp á þessum tíma. Að lokum sagði hann að helst mætti til þess horfa að hafa sterkari innviði og þjálfaðri viðbragðsaðila þegar kemur að málum sem þessum í framtíðinni. 

Fjölmargir erlendir gestir, sem sérhæfa sig í krísustjórnun, sátu fundinn …
Fjölmargir erlendir gestir, sem sérhæfa sig í krísustjórnun, sátu fundinn í morgun.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert