Vonar að úr þessu verði bætt

Páll Matthíasson vonar að úr þessu verði bætt.
Páll Matthíasson vonar að úr þessu verði bætt. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Þetta eru vonbrigði. Staða spítalans er erfið," segir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans. Hann telur áhyggjuefni að tímabundið (til þriggja ára) 600 milljóna króna framlag til spítalans vegna tækjakaupa verði fellt niður.

Landspítalinn fær samkvæmt fjárlagafrumvarpinu 39.776 milljónir á næsta ári, en 38.486 m.kr. án verðbóta. Þegar saman kemur hallarekstur LSH á þessu ári vegna aukins álags og jafnlaunaátaks ríkisstjórnarinnar sem ekki var að fullu bætt, auk lægra tækjakaupastuðnings, þá er sparnaðarkrafan á LSH 2,5-3,5% eftir því hvaða forsendur eru gefnar.

Þá segir í greinargerð með frumvarpinu að unnið sé að því að endurmeta þörf Landspítalans til tækjakaupa og vonast sé eftir að þeirri vinnu ljúki á haustdögum. 

Hefur ekki skoðun á sjúklingaskattinum

Fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir að sjúkrahús hefji innheimtu á gjaldi á sjúklingum sem leggjast inn á sjúkrahús. Þetta gjald á að skila Landspítalanum 200 milljónum á næsta ári. 

„Sjúklingaskattur er pólitísk ákvörðun og ég hef ekki skoðun á honum. Hins vegar getur útfærslan reynst erfið. Ekki er víst að 200 milljón króna tekjur séu raunhæfar,“ segir Páll.

Hann minnist þess að í fjárlögum 2009 var sams konar ákvæði, sem Páll segir að Ögmundur Jónasson þáverandi ráðherra hafi tekið af og lagt peninginn í staðinn sem aukasparnaðarkröfu á Landspítalann. 

Það er vilji til að bæta í

„Eins og frumvarpið liggur fyrir núna tel ég að í ljósi þess hvernig stjórnvöld hafa talað er að vilji þeirra er að það þurfi að bæta í á Landspítalanum. Við vonum og gerum ráð fyrir því að stjórnvöld muni standa við þau orð sín og styrkja rekstur spítalans með tækjabúnaði og betri aðstöðu,“ segir Páll.

Hann segist treysta því að úr þessu verði bætt áður en frumvarpið verður samþykkt.

„Það er alveg ljóst að verkefnið mitt er að styrkja þjónustu spítalans, bæta líðan starfsfólks og auka starfsánægju. Það verður best gert með því að bæta aðbúnað og tækjakost. Til þess þurfum við meira fé en gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert