Álftir valda tíðari truflunum en veðrið

Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri Rarik, segir álftir sem fljúgi á rafmagnslínur valdi meiri truflunum á dreifingu raforku en íslensk veðrátta. „Þetta er vaxandi vandamál,“ segir Tryggvi Þór. Kostnaðinn segir hann hlaupa á milljónum ár hvert. Mbl.is greindi frá því á mánudaginn að kornbændur á suðurlandi eigi einnig í mesta basli með álftina.

„Afleiðingar þess að svona stórir fuglar fljúgi á línurnar eru oft truflanir fyrir viðskiptavini. Stundum veldur þetta líka línuslitum. Í öllum tilvikum þegar álftir eða gæsir fljúga á línur og valda samslætti þá verður eitthvað tjón á vírnum og hann kann því að vera veikari við næstu ísingu,“ segir Tryggvi Þór.

Hann segir eitt af stóru verkefnum Rarik þessa stundina vera að grafa línu sem liggur milli Landeyjasands og austur áleiðis á Vík í Mýrdal. „Þessi lína sem þarna liggur var orðin það mikið vandamál vegna áflugs fugla að við sáum þann kost vænstan að leggja hann í jörðina.

Hann segir þetta breyta forgangsröðun verkefna og hafi meðal annars þær afleiðingar að ekki er hægt að leggja línur í jörðu sem eru á erfiðum svæðum veðurfarslega fyrir þá fjármuni sem notaðir eru í þessi verkefni.

Þá hafi svokallaðar fuglafælur verið settar á línurnar, en þær séu hugsaðar til að gera línurnar sýnilegri fyrir fuglana, sem fljúgi oftast á þær þegar sól er lágt á lofti um vor og haust. 

„Kostnaður okkar við skemmdirnar hleypur örugglega á milljónum. Þá tökum við ekki tjón notenda vegna rafmagnsleysis. Ég held að það sé að verða tímabært að fækka álftunum. Stofninn er orðinn stór þannig að mér finnst að það ætti að leyfa einhverjar veiðar á þessum fuglum,“ segir Tryggvi Þór.

Þyrfti að fá leyfi til að skjóta álftina

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert