Forgangsröðunin fær falleinkunn

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. Ernir Eyjólfsson

„Mér finnst yfirbragð frumvarpsins og forgangsröðun ríkisstjórnarinnar fá falleinkunn,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar sem lagt var fram á Alþingi í gær. Hann segist furða sig á því að eftir mikla umræðu um heilbrigðiskerfið að undanförnu, til að mynda varðandi stöðu lykilstofnana eins og Landspítalans, og vaxandi fjölda fólks sem hefur ekki fjármuni til að leita sér læknisaðstoðar, að þá skuli það hafi verið sett í forgang að lækka skatta á þá efnameiri.

Gylfi gagnrýnir að dregið hafi verið úr fjárframlögum til átaksverkefna vegna atvinnuleysis. „Þrátt fyrir að atvinnuleysi hafi minnkað, þá hefur störfum ekki fjölgað,“ segir hann og bætir við að atvinnurekendur hafi meðal annars borið átaksverkefnunum góða söguna og sagt þau skipta miklu máli fyrir atvinnulífið.  

Meðal þeirra breytinga sem gerðar eru í fjárlagafrumvarpinu er lækkun tryggingagjaldsins úr 7,34% í 7%. Gylfi segir að með því að hækka tryggingagjaldið verði þrengt að því að hægt verði að ná farsælli lausn við gerð kjarasamninga á komandi vetri. „Þetta er ekki innlegg í að hægt sé að ná samningum,“ segir hann.

Fagnar kjarabót til öryrkja og aldraðra

Gylfi segir að margt jákvætt megi finna í frumvarpinu, til að mynda þá kjarabót sem öryrkjar og aldraðir fá í nýjum fjárlögum og fagnar þeim fjármunum. „Þetta er þó ekki lausnin sem ég hefði vilja sjá, ég hefði frekar vilja sjá breytingar á þessu kerfi,“ segir Gylfi og vísar þar í almannatryggingakerfið.

„Ég hefði vilja sjá meiri breytingar þannig að það verði meiri hvati til fólks til að vinna sig úr úr örorku,“ segir Gylfi. Hann bendir einnig á að ASÍ styðji vissulega þá stefnu stjórnvalda að ná tökum á ríkisfjármálunum en að sögn hans sé í frumvarpinu sett í forgang að gera vel efnuðu fólki lífið auðveldara.

„Ríkisstjórnin verður að átta sig á því að til þess að sátt geti verið um fjárlögin, þá verður forgangsröðin að vera til staðar,“ segir Gylfi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert