Staðinn verði vörður um velferðarkerfið

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, mælir fyrir fjárlagafrumvarpinu í morgun.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, mælir fyrir fjárlagafrumvarpinu í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þrátt fyrir mikið aðhald og sparnað er það ásetningur ríkisstjórnarinnar að standa vörð um velferðarkerfið,“ sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, á Alþingi í morgun þegar hann mælti fyrir fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Þannig fæli frumvarpið í sér aukin framlög til elli- og örorkulífeyrisþega og félagslegrar aðstoðar sem næmu 5 milljörðum króna. Þau útgjöld ykust að auki um 3,4 milljarða vegna fjölgunar bótaþega og verðabóta á lífeyri.

Ennfremur yrði lögð áhersla á að auka ráðstöfunartekjur heimilanna og í því skyni yrði tekjuskattur lækkaður um 0,8% í miðþrepinu en 80% skattgreiðenda greiddu skatt í því þrepi. Þá yrði átakið Allir vinna, um endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna vinnu við endurbætur á húsnæði, framlengt og frítekjumark vaxtatekna einstaklinga hækkað og þannig yrðu um 200 milljónir skildar eftir hjá heimilunum sem annars hefðu runnið til ríkissjóðs í formi fjármagnstekjuskatts.

„Sömuleiðis hækkar frítekjumark barna og launaþak í fæðingarorlofi auk þess sem virðisaukaskattur á bleyjum lækkar. Loks verður tímabundin hækkun vaxtabóta til handa tekjulágum fjölskyldum framlengd og nýleg hækkun barnabóta varin. Lög gerðu ráð fyrir talsvert mikilli lækkun vaxtabóta við áramót þar sem að hámarksvaxtabætur til hjóna hefðu getað fallið úr um 600 þúsund krónum á ári niður undir um 300 þúsund krónur. Við þessu er brugðist með því að framlengja gildandi ákvæði og munar verulegu fyrir tekjulágar, skuldsettar fjölskyldur,“ sagði hann.

Ennfremur lagði Bjarni áherslu á mikilvægi þess að stöðva skuldasöfnun ríkissjóðs og greiða niður skuldir hans. Fjárlagafrumvarpið væri liður í því að snúa þeirri þróun við en stefnt væri að hallalausum fjárlögum á næsta ári í fyrsta sinn frá árinu 2007. Hann benti á að frá árinu 2010 hefði ríkissjóður greitt um 50 milljarða í vexti af lánum sem voru tekin til þess að endurfjármagna íslenska banka eftir efnahagshrunið. Þá væri mikilvægt að snúa af braut skattahækkana undanfarinna ára enda væri það trú ríkisstjórnarinnar að lægri skattar leiddu til aukinna umsvifa í efnahagslífinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka