Mun ekki einkavæða heilbrigðisþjónustuna

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra.
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra. mbl.is/Golli

„Það stendur ekkert til að einkavæða íslenska heilbrigðisþjónustu á meðan ég gegni þessu embætti. Það eru hins vegar skýr skil á milli einkavæðingar og einkarekstrar. Einkarekstur í heilbrigðisþjónustu hefur gengið,“ sagði Kristján Þór Júlíusson heilbrigiðsráðherra í umræðum á Alþingi um fjárlög næsta.

Hann segist hafa tekið Salastöðina í Kópavogi sem gott dæmi um einkarekstur í heilbrigðiskerfinu.

„Þar sem að ríkið er með samning við einstaklinga, það er skilgreint hvaða vinnu þeir eiga að skila, hvaða árangri þeir eiga að skila og hvernig eftirliti með þessari þjónustu skuli háttað. Þetta hefur gengið afspyrnuvel og til fyrirmyndar hvernig sú vinna hefur verið unnin,“ sagði Kristján Þór.

Þá segist Kristján Þór hafa mikinn áhuga á því að setja lög um greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðiskerfinu til að dreifa og jafna þeim byrðum á sem flestar herðar. Hann telur að um það ríki þverpólitísk samstaða á Alþingi.

„Það er ekki eðlilegt að við séum að karpa t.d. með þeim hætti sem við höfum lent í um gjaldtöku sjúklinga á síðustu dögum, þegar við fáum síðan fréttir af því að einn einstaklingur, eins og Morgunblaðið flutti fréttir af í morgun, krabbameinssjúklingur sem lendir í göngudeildarþjónustu og lendir í því að vera búinn að borga yfir 600 þúsund krónur. Það er eitthvað að í þessu kerfi öllu,“ segir Kristján.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert