3 ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn börnum

mbl.is

Héraðsdómur Suðurlands dæmdi í gær ungan karlmann í þriggja ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn börnum. Þá er manninum gert að greiða 2,3 milljónir kr. í miskabætur.

Í júní sl. ákærði ríkissaksóknari manninn fyrir kynferðisbrot gegn börnum í tveimur ákæruliðum.

Í þeim fyrri var hann ákærður fyrir að hafa í júní 2010 haft samfarir við 13 ára barn.

Í seinni liðnum var honum gefið að sök nauðgun og kynferðisbrot gegn barni með því að hafa í nóvember 2012 neytt 13 ára barn til að hafa við sig munnmök. Maðurinn nýtti sér yfirburðastöðu sína gagnvart stúlkunni sökum aldurs- og þroskamunar og það að hann hafði komið henni í aðstæðru sem vöktu með henni ótta og bjargarleysi. Maðurinn var þá 18 ára gamall.

Við þingfestingu málsins játaði maðurinn sök samkvæmt fyrri lið ákærunnar. Hann neitaði hins vegar sök hvað varðar síðari liðinn. 

Í dómi Héraðsdóms Suðurlands kemur fram, að sannað sé með skýlausri játningu mannsins fyrir dómi og öðrum gögnum málsins að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem lýst er í fyrri lið ákæru.

Varðandi seinni ákæruliðinn segir í dómi héraðsdóms: Vegna þessa og yfirburðastöðu ákærða vegna aldurs- og þroskamunar sem og trúverðugrar lýsingar brotaþola á því hvernig ákærði lét hana hafa við sig munnmök, telur dómurinn hafið yfir skynsamlegan vafa að aðstæður í máli þessu falli undir annars konar ólögmæta nauðung í skilningi 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 3. gr. laga nr. 61/2007. Að mati dómsins er því fram komin lögfull sönnun þess að ákærði hafi beitt brotaþola ólögmætri nauðung þegar hann, gegn vilja brotaþola, lét brotaþola hafa við sig munnmök sem samkvæmt dómaframkvæmd hefur verið skilgreint sem önnur kynferðisleg mök í skilningi 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga.“

Þá kemur fram að maðurinn eigi, þrátt fyrir ungan aldur, að baki nokkurn sakaferil.

Hann hafi t.d. tvívegis gengist undir sektargreiðslu vegna ölvunaraksturs og aksturs án réttinda, með sáttum lögreglustjóra árið 2010. Hann var dæmdur til greiðslu sektar fyrir fíkniefnalagabrot með dómi í desember 2011 og einnig gekkst ákærði undir sektargreiðslu hjá lögreglustjóra fyrir samskonar brot í september 2012.

Með dómi Héraðsdóms Norðurlands vestra þann 20. apríl 2010 var ákvörðun refsingar frestað skilorðsbundið í tvö ár fyrir brot gegn almennum hegningarlögum en ákærði var 15 ára þegar hann framdi það brot. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur þann 27. október 2011 var hann dæmdur í 6 mánaða fangelsi fyrir frelsissviptingu, sem hann framdi þegar hann var 16 ára. Með því broti rauf ákærði skilorð dómsins frá 20. apríl 2010 og var honum gerð refsing í einu lagi. Loks var hann dæmdur í 18 mánaða fangelsi með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur þann 15. október 2011 fyrir brot gegn 217. gr. almennra hegningarlaga, frelsisskerðingu og brennu. Var refsing ákærða ákveðin sem hegningarauki við dóminn frá 27. október 2011.

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert