Manni misþyrmt og hann pyntaður

Árásarmennirnir bönkuðu upp á og misþyrmdu manninum.
Árásarmennirnir bönkuðu upp á og misþyrmdu manninum. Kristinn Ingvarsson

Hæstiréttur hefur staðfest gæsluvarðhald yfir karlmanni sem grunaður er um aðild að „mjög alvarlegum og svívirðilegum“ brotum. Honum er gefið að sök að hafa ásamt Stefáni Loga Sívarssyni svipt mann frelsi sínu, misþyrmt honum og pyntað hann. Maðurinn verður í haldi til alla vega 30. október nk. en ákæra hefur verið gefin út á hendur honum.

Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu segir að fórnarlambið hafi verið sofandi heima hjá sér þegar dyrabjöllunni var hringt. Í gegnum dyrasíma var honum tjáð að vinur hans væri við dyrnar. Þegar hann opnaði dyrnar ruddust menn inn og hófu barsmíðar. 

Maðurinn kvaðst hafa áttað sig á ástæðu þessa, en hann stundaði kynlíf með barnsmóður eins árásarmannanna.

Eftirfarandi er aðeins brot af þeirri lýsingu sem fram kemur í greinargerðinni. Ástæða er til að vara við lýsingunum sem hér fylgja á eftir: „Hafi þeir lamið hann með kylfum og bundið hann að fyrirskipan meðákærða þannig að hann hafi legið á maganum með hendur fyrir aftan bak og hafi þeir þannig haldið áfram að lemja á honum. Hafi meðákærðu og ákærði síðan afklætt hann, sprautað rakspíra á bringuna og kveikt í. Hafi þeir síðan gert það sama við kynfæri hans. Hafi hann við það hreyft sig í þeim tilgangi að slökkva logann en þá hafi þeir tveir látið höggin dynja á honum.

Meðákærði hafi síðan á milli högga spurt hann um barnsmóður sína. Þá kveður hann meðákærða hafa lamið sig með kylfu í andlitið þannig að efri vör hans hafi rifnað og framtönn brotnað og hafi ákærði þá talið sig geta saumað þetta aftur á brotaþola og hafi ákærði játað. Hafi meðákærði síðan þvingað hann til að gleypa heila lúku af óþekktum pillum og ákærða X til að sprauta hann í rassinn með óþekktu lyfi, sem og hann gerði.“

Þá segir að enn sé hætta á að fórnarlambið hafi smitast af alvarlegum smitsjúkdómum en hann hafi verið stunginn með notuðum sprautunálum, sem og að einn árásarmaðurinn hafi játað að hafa saumað vörina á fórnarlambinu.

Í niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur sem Hæstiréttur staðfesti segir: „Að mati dómsins er um að ræða mjög alvarleg og svívirðileg brot og gæti það valdið óróa og ótta í samfélaginu um áframhaldandi ofbeldisbrot ákærða verði hann látinn laus.

Frétt mbl.is: Sagður hafa kveikt í kynfærum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert