Öll myndgreiningartæki biluð á spítalanum

Landspítalinn.
Landspítalinn. mbl.is/Eggert

Myndgreining á Landspítalanum er nú í lamasessi þar sem öll þrjú tæki spítalans eru biluð. Bráðveikt og slasað fólk verður nú flutt í Orkuhúsið, til sjálfstætt starfandi sérfræðinga. Að auki hefur innra tölvukerfi spítalans legið að hluta niðri síðan fyrir helgi með tilheyrandi töfum og seinagangi.

Myndgreiningadeild er lykileining á nútímasjúkrahúsi. Tækin eru notuð bæði til að greina sjúkdóma og meiðsli en einnig við inngrip, s.s. í skurðaðgerðum.

Starfsfólk spítalans sem mbl.is ræddi við í dag segir að starfsemin sé að snúast upp í hálfgerðan farsa.

Sjúklingar sendir í Orkuhúsið

Eins og mbl.is hefur fjallað um hefur annað af tveimur sneiðmyndatækjum Landspítalans verið bilað síðan á fimmtudag í síðustu viku. Sneiðmyndatækin eru nauðsynlegur hluti af bráðaþjónustu spítalans og þýðir því að síðustu daga hefur þurft að flytja fjölda sjúklinga, sem komu slasaðir eða fárveikir á bráðamóttökuna í Fossvogi, yfir á Hringbraut til myndgreiningar.

Í dag bilaði svo líka hitt tækið, á Hringbraut, og getur Landspítalinn því ekki sinnt bráðveikum og alvarlega slösuðum sjúklingum sem þurfa á myndgreiningu að halda. Ef á reynir verður gripið til þess ráðs að senda bráðatilfelli í Orkuhúsið, þar sem Íslensk myndgreining ehf. er með starfsemi.

Þriðja myndgreiningartæki Landspítalans, s.k. ísótópatæki, bilaði einnig í dag. Tækið hefur ekki nákvæmlega sömu virkni og sneiðmyndatæki og er ekki notað í bráðatilfellum, en er samkvæmt heimildum mbl.is engu að síðust mjög mikilvægt röntgendeild spítalans. Ísótópatækið er hið eina sinna tegundar á spítalanum og mikið notað. Bilunin lengir því biðtíma sjúklinga.

Myndgreining á spítalanum er því í lamasessi. Varahlutir í tækin koma að utan, frá meginlandi Evrópu og eru send til landsins með DHL.

Starfsemi spítalans hálflömuð vegna tölvubilunar

Ekki er ein báran stök á Landspítalanum, því í ofanálag við þessar bilanir hefur innra tölvukerfi spítalans, sk. ROS-kerfi, verið í miklum hægagangi síðustu daga og legið niðri að hluta. Við þetta hálflamast starfsemi spítalans.

Í gegnum ROS-kerfið eru m.a. pantaðar blóðtöku- og röntgenbeiðnir, sem ekki hafa virkað sem skyldi. Þá hefur gengið erfiðlega að nálgast rannsóknarniðurstöður í kerfinu, m.a. niðurstöður myndgreininga. Eins og gefur að skilja hægir þetta umtalsvert á þjónustu við marga sjúklinga.

Samkvæmt heimildum mbl.is stendur til að skipta ROS-kerfinu út á næstu mánuðum en í millitíðinni geta starfsmenn þurft að fara fjallabaksleið til að koma nauðsynlegum beiðnum til skila og nálgast rannsóknarniðurstöður, ef bilanir koma upp.

Skorið niður til tækjakaupa ár frá ári

Segja má að þessar bilanir, bæði á lykiltækjum fyrir öryggi sjúklinga og tölvubúnaði sem er starfsfólki nauðsynlegur, séu ein birtingarmynd þess hvernig dropinn hefur holað steininn á Landspítala síðustu ár. Innviðir spítalans virðast vera byrjaðir að láta undan.

Allt frá sameiningu Landspítala og Borgarspítala hefur verið skorið niður til tækjakaupa. Á síðasta ári samþykkti fyrrverandi ríkisstjórn 600 milljóna króna aukafjárveitingu til tækjakaupa á Landspítalanum. Í frumvarpi til fjárlaga næsta árs, sem kynnt var í síðustu viku, er þetta framlag fellt niður.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að unnið sé að því að endurmeta þörf Landspítalans til tækjakaupa og vonast sé eftir að þeirri vinnu ljúki á haustdögum.

Sneiðmyndatæki
Sneiðmyndatæki mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert