Sagðist hafa gleypt amfetamín

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt 28 ára konu í 30 daga fangelsi fyrir að aka bifreið svipt ökurétti og undir áhrifum amfetamíns. Konan hélt því fram að hún hefði gleypt amfetamínið eftir að hún var stöðvuð og krafðist sýknu af þeim ákærulið.

Samkvæmt sakavottorði hefur konan frá árinu 2004 fimm sinnum gengist undir sáttir og viðurlagaákvörðun fyrir brot gegn umferðarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni. Konan hefur einu sinni verið dæmd til greiðslu sektar fyrir brot á umferðarlögum og í þrígang verið svipt ökurétti.

Dómurinn taldi afar ósennilegt að konan hefði gleypt amfetamínið. „Þegar litið er til þess að lögreglumenn stöðvuðu ákærðu í akstri, að myndskeið úr myndavél í lögreglubifreið leiðir í ljós að einungis örfáar sekúndur liðu frá því að ákærða stöðvaði akstur bifreiðarinnar þar til lögreglumenn voru við hlið hennar og að ákærða bar þess skýr einkenni þegar á þeim tíma að hafa neytt fíkniefna, telur dómurinn hafið yfir allan vafa að ákærða hafi við akstur bifreiðarinnar [...] þessa nótt, verið undir áhrifum ávana- og fíkniefna, svo sem henni er gefið að sök í ákæru.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert