Þeystust um hæðir í mekka fjallhjólreiða

Þeir voru í átta tíma í hnakk á hverjum degi.
Þeir voru í átta tíma í hnakk á hverjum degi.

Þetta var rosalega skemmtileg ferð, en líka erfið,“ segir Bjartmar Arnarson en hann er nýkominn heim ásamt tveimur félögum sínum, Hlyni Stefánssyni og Ara Rafni Sigurðssyni, úr ævintýralegri hjólaför til Moab í Bandaríkjunum, sem er lítill námubær í Utah. Þar er mikil náttúrufegurð, Colorado-áin áberandi ásamt miklum steinbogum og sandsteinsklettum.

„Moab er mekka fjallahjólreiða, þarna eru gríðarlega margir hjólastígar, hundruð kílómetra og dagleiðirnar langar. Þetta er fjalllendi og okkur var skutlað upp eftir á hverjum degi og svo hjóluðum við niður í móti. Við hjóluðum í fjóra daga, um fimmtíu kílómetra á hverjum degi, samtals um hundrað og áttatíu kílómetra.“ Bjartur segir að fyrsti dagurinn hafi verið erfiður. „Þetta var krefjandi 35 kílómetra upphitunarhringur með 460 metra klifri upp. Leiðin lá eftir Westwater Mesa Rim, síðan niður í dal og áfram eftir brúnum Great Western Rim, ofan við Colorado-ána, en síðan aftur til baka eftir leið sem heitir Kokopelli. En á öðrum og þriðja degi lækkuðum við okkur um tvo kílómetra, sem er eins og að fara niður Hvannadalshnjúk. Við vorum átta tíma í hnakk á hverjum degi, sem var nokkuð mikið og nýtt fyrir okkur.“

Víkingarnir völdu erfiða leið

Á öðrum degi var þeim ekið upp á Magnificent seven, sem er 40 kílómetra leið og samanstendur af sjö mismunandi slóðum. „Við völdum auðvitað erfiða leið, eins og sönnum víkingum sæmir og leiðsögukonan okkar reyndi að fá okkur ofan af því, en varð ekki ágengt. Leiðin var mjög skemmtileg, byrjaði strax sem flæðandi einstígi með stöllum og endalausum beygjum eftir klettabrúnum og gisnum eyðimerkurgróðri. Stöku eðla og nagdýr urðu á vegi okkar og við enduðum svo í Portal Trail, þar sem menn hafa hrapað til ólífis og nauðsynlegt er að leiða hjólin framhjá erfiðustu hindrunum á stígnum sem liggur í hamrahlíð.“

Á þriðja degi var mikil spenna í piltunum, til stóð að hjóla frægustu hjólaleiðina, Whole Enchilada, en hún byrjar í Burro Pass í 3.400 metra hæð. „En tindar La Sal-fjallanna voru alhvítir um morguninn og vegna snjókomu var ekki hægt að fara þangað, en þess í stað ekið að næsta slóða, Hazard County. Við vorum svolítið svekktir, af efsta hluta Whole Enchilada, en þessi leið reyndist líka frábær, við runnum niður Hazard, Kokopelli, og einstakan Porcupine.“

Spennandi risaeðluslóðir

Á fjórða og síðasta deginum hafði bætt í snjóinn en þeir félagarnir létu það ekki stoppa sig í að ná efsta hlutanum sem þeir misstu af deginum áður. „Við streðuðum upp frá Hazard County, klifruðum upp í skarð sem var 600 metra hækkun. Þar óðum við snjóinn í ökkla og það var undarlegt að vera í þessu vetrarríki á þessu eyðimerkursvæði. En þetta var frábær leið í gegnum furu og birkiskóg efst, sem síðan breyttist í eyðimörk neðar. Við sáum dádýr við fjallatoppana en skröltormar og eðlur voru meira áberandi í eyðimörkinni,“ segir Bjartur og bætir við að þarna séu risaeðluslóðir. „Þarna hafa fundist miklar risaeðlumenjar og við sáum steingervinga þar sem við hjóluðum, sem var stórmerkilegt.“

Voru með andköfum

Bjartur segir að nokkuð víða hafi útsýnið af klettabrúnum verið stórfenglegt. „Þar sem stígarnir liggja mjög víða alveg fram á brúninni vorum við oft með andköfum vegna fegurðarinnar og víðáttunnar sem blasti við. Þetta var sannkallað villta vestur, klettar og runnar, alveg fáránlega flott að hjóla þarna.“ Fyrir ferðina fengu þeir ráð og leiðbeiningar, til að geta tekist á við tæknilega erfiða hluti, að hoppa fram af stöllum og þræða sig meðfram stórgrýti. „Það var vel krefjandi að vera á svona erfiðum slóðum, en ég stökk bara af hjólinu þegar þess þurfti. Við lærðum mjög mikið tæknilega af þessari ferð og við erum svo sannarlega orðnir færari í að hjóla.“

Hér að neðan má sjá myndband frá hjólreiðaköppunum. 

Þeir hjóluðu um þetta villta vestur.
Þeir hjóluðu um þetta villta vestur.
Þeir hjóluðu á stígum sem lágu um hamrahlíðar.
Þeir hjóluðu á stígum sem lágu um hamrahlíðar.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert