Vel hægt að skattleggja þrotabúin

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra. mbl.is/Kristinn

Fjármálaráðherra segir ekkert því til fyrirstöðu að skattleggja þrotabú gömlu bankanna eins og gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar en slitastjórnir þeirra eru því ósammála og vilja láta reyna á lögmæti slíkrar skattheimtu komi til hennar.

Haft var eftir Jóhannesi Rúnari Jóhannessyni, sem á sæti í slitastjórn Kaupþings, í fréttum Ríkisútvarpsins í kvöld að slík skattheimta yrði hrein eignaupptaka enda væru þrotabúin ekki starfandi fjármálafyrirtæki sem hefði þann möguleika að velta tapi vegna skattheimtu út í verð þjónustu eða vöru.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra er þessu ósammála og sagði í samtali við RÚV að í versta falli væri hægt að leggja skattinn á eiginlegar kröfur. Gert er ráð fyrir því í fjárlagafrumvarpinu að skattur á þrotabú bankanna skili hátt í 14 milljörðum króna í ríkissjóð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert