Vilja fá broskallinn til Íslands

Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar.
Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar. mbl.is/Rósa Braga

Þingflokkur Bjartar framtíðar hefur lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi um að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra verði falið að undirbúa gerð lagafrumvarps í samráði við heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna þess efnis að gæðamerkið „broskallinn“ verði tekið upp hjá fyrirtækjum hér á landi sem selja matvæli.

„Markmiðið með broskarlakerfinu sem Danir innleiddu árið 2001 er að gera eftirlitsskýrslur heilbrigðisfulltrúa opinberar, þannig að neytendur séu upplýstir um ástand veitingastaða, ísbúða, bakaría og annarra staða sem selja matvæli. Eftir hverja úttekt eru skýrslurnar hengdar upp á áberandi stað, svo sem í glugga eða við inngang, og einnig eru þær settar á netið. Áhersla er lögð á að kerfið sé skiljanlegt og því eru birt tákn (broskarl), sem gefur til kynna hvernig fyrirtækið stendur sig,“ segir í greinargerð með tillögunni.

Þess má geta að slík þingsályktunartillaga var áður lögð fram á Alþingi í apríl á síðasta ári af Siv Friðleifsdóttur, þáverandi þingmanni Framsóknarflokksins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert