ESB hætt við að refsa Íslandi?

Evrópuþingmaðurinn Pat
Evrópuþingmaðurinn Pat "the Cope" Gallagher. mbl.is/Styrmir Kári

Írski Evrópuþingmaðurinn Pat "the Cope" Gallagher gagnrýndi Mariu Damanaki, sjávarútvegsstjóra Evrópusambandsins, harðlega á Evrópuþinginu í dag fyrir að hafa ekki staðið við loforð sitt um að beita Íslendinga og Færeyinga refsiaðgerðum vegna makrílveiða þjóðanna tveggja.

Fram kemur á írska fréttavefnum Donegalnow.com að Gallagher hafi sakað Damanaki um að sýna Evrópuþinginu lítilsvirðingu með því að neita að ræða málið við sjávarútvegsnefnd þingsins. Hann hafi bent á að Damanaki hefði í sumar lýst því yfir að gripið yrði til refsiaðgerða gegn Íslendingum og Færeyingum áður en sumarleyfi Evrópuþingsins lyki. „Hún hefur ekki staðið við orð sín og nú neitar hún að hitta nefndina og gera grein fyrir afstöðu sinni fyrr en í síðasta lagi 27. nóvember. Að mínu mati er hún að sýna Evrópuþinginu algera lítilsvirðingu.“

Makrílstofninn ekki ofveiddur

Forsenda boðaðra refsiaðgerða gegn Íslandi og Færeyjum hefur verið sú fullyrðing Evrópusambandsins að ríkin tvö stunduðu ósjálfbærar veiðar á makríl en fullyrðing sambandsins var byggð á ráðleggingum Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES). ICES birti síðastliðinn föstudag ráðleggingar sínar fyrir næsta ár þar sem kom fram að mat þess undanfarin ár hafi ekki gefið rétta mynd af stærð stofnsins og að hann hefði haldið áfram að stækka þrátt fyrir að veiðar undanfarinna ára hafi verið langt umfram ráðleggingar þess. Ráðleggingar ICES fyrir næsta ár eru því til bráðabirgða meðaltal þess sem veitt var síðustu þrjú ár.

Fram kemur í fréttinni að Gallagher hafi fagnað ráðleggingum ICES fyrir næsta ár sem gæti leitt til lausnar makríldeilunnar við Íslendinga og Færeyinga. Hins vegar lagði hann áherslu á að þjóðirnar tvær yrðu ekki verðlaunaðar í mögulegum samningum á kostnað írskra sjómanna sem gengið hefðu um makrílstofninn með ábyrgum hætti.

Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri ESB.
Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri ESB. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert