Umræða um heilbrigðismál lausbeisluð

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra.
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra. mbl.is/Golli

„Það hefur verið heldur stormasamt í kringum heilbrigðismálin að undanförnu, stóru orðin hafa ekki verið spöruð og umræðan að mínu viti verið heldur lausbeisluð á köflum,“ sagði Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra á aðalfundi Læknafélags Íslands í dag.

Kristján ávarpaði fundinn og sagðist ekki gera lítið úr þeim vanda sem við er að fást „en ég óska eftir málefnalegri umfjöllun og legg áherslu á að við tökumst á við þessi viðfangsefni af skynsemi með lausnir að leiðarljósi.“

Hann sagði að úrtölur og upphrópanir geti valdið skaða sem erfitt sé að bæta. Ef mannauðurinn sé sífellt talaður niður með því að einblína á það sem miður fer en látið kyrrt liggja það sem vel er gert og vel gengur þá segi það sig sjálft að steytt verði á skeri. „Svona umræða grefur undan þessum starfsvettvangi, hann verður fráhrindandi og ekki fýsilegt fyrir fólk að ráða sig þar til starfa.“

Þá sagðist hann reiðubúinn að skoða fjölbreyttara rekstrarform í heilbrigðiskerfinu og vinna að bættum starfsskilyrðum og betra skipulagi, sé skynsemi í framkvæmdinni. „Ég ætla mér ekki að opna fyrir einhverja krana með handahófskenndri verktöku. Ríkið á að bera ábyrgð á heilbrigðisþjónustu í landinu líkt og lög kveða á um en það er alveg hægt að fela einstaklingum og fyrirtækjum að sinna ákveðnum þáttum fyrir hönd ríkisins. Það þarf hins vegar að skilgreina vandlega hvaða þjónustu ríkið ætlar að kaupa, tryggja eftirlit með gæðum og öryggi hennar og standa fast á því grundvallarsjónarmiði að landsmenn allir eigi jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustunni.“

Ræðan í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert