Fingrafar jökla í heimshöfunum

Jökulsárlón myndaðist í kringum 1934-1935, en fyrir þann tíma rann …
Jökulsárlón myndaðist í kringum 1934-1935, en fyrir þann tíma rann Jökulsá á Breiðamerkursandi beint undan jökli um 1,5 km til sjávar. Síðan þá hefur jökullinn hopað og lónið stækkað. mbl.is/Ómar Óskarsson

Staða sjávar hækkaði smám saman alla 20. öldina. Frá því snemma á 10. áratugnum hefur yfirborð hækkað að jafnaði um 3 mm á hverju ári. Vísbendingar eru um að sjávarborð hækki nú hraðar en áður og hugsanlegt að árið 2100 verði það 1 m hærra en árið 1990, fyrst og fremst vegna bráðnunar jökla og íss.

Ef fram fer sem horfir má rekja drýgstan hluta hækkunarinnar til bráðnunar jökla og íshvela, sem halda áfram að hopa og hverfa. „Frá miðjum 10. áratug síðustu aldar hefur verið dúndrandi tap í rekstri allra okkar jökla. Þeir eru að missa að meðaltali einn metra á ári,“ segir Helgi Björnsson jöklafræðingur.

Ný og nákvæmari spá um minni hækkun sjávar

Vísindamenn frá 24 stofnunum í Evrópu og víðar, þ.á.m. Háskóla Íslands, hafa frá árinu 2009 unnið að rannsóknarverkefninu Ice2sea, en markmið þess var að endurbæta spár um framlag jökla á jörðinni til hækkunar sjávarborðs.

Verkefninu lauk í sumar og niðurstöðurnar, sem kynntar voru í Háskóla Íslands í dag, voru m.a. nýttar í 5. skýrslu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál, sem kom út á dögunum.

Undanfarna tvo áratugi hafa vísindamenn nýtt gervitungl til að mæla hækkun sjávarborðs og með hjálp tölvulíkana unnu vísindamenn í Ice2sea verkefninu nýja og nákvæmari spá um framlag jökla til hækkunar sjávarborðs út frá mismunandi breytingum í loftslagi.

Þessi spá gerir ráð fyrir að fram til ársins 2100 geti meðalhæð sjávar hækkað um allt frá 3,5 cm upp í 36,8 cm. Þetta er heldur lægri spá en hefur komið fram á síðastliðnum árum, en hún gerir ekki ráð fyrir að stórkostlegar breytingar verði í ísþekju austurhluta Suðurskautslandsins á næstu árum. Slíkar breytingar gætu valdið meiri hækkun.

Mest áhrif utan heimsskautasvæðanna

Guðfinna Aðalgeirsdóttir, dósent í jöklafræði við Jarðvísindadeild HÍ, benti á að hækkun sjávarborðs verði ekki jöfn yfir heimshöfin heldur verði breytingarnar svæðisbundnar og mestar í kringum miðbaug, en vegna þyngdartogunar hækki yfirborðið minna þar sem bráðnun verður hvað mest, s.s. við Grænlandsjökul.

„Fingrafar jökla á sjávarstöðubreytingar eru mismunandi. Bráðnun jökla hefur mest áhrif á sjávarstöðu í úthöfum utan heimsskautasvæðanna, þannig að eyríki í Kyrrahafi og önnur strandssvæði utan heimsskautanna verða verst úti,“ sagði Guðfinna.

Hækkunin verður hins vegar ekki jöfn yfir jörðina alla heldur mun yfirborð sjávar hækka mest á úthöfunum kringum miðbaug, en minna á heimsskautasvæðunum. Á sumum strandsvæðum Íslands gæti sjávarborð hækkað umtalsvert, einkum við suðvesturhornið.

Íslenskir jöklar rýrna hratt eftir 1995

Framlag jökla og íshvela í hækkun sjávar á þessari öld gæti orðið á bilinu 3,0 til 12,5 cm á ári. Framlag Grænlandsjökuls verður 0,5 -18,3 cm og Suðurskautslandsins 0-6,0 cm.

Íslenskir jöklar munu ekki eiga nema litla hlutdeild í hækkun heimshafanna, að sögn Helga Björnssonar jöklafræðings, en hann benti þó á að safnast þegar saman kemur.

Helgi sagði að íslenskir jöklar hafi rýrnað hratt frá miðum 10. áratug síðustu aldar. Samanlögð afkoma jöklanna dragist saman hvert einasta ár og verði neikvæðari og neikvæðari.

Þannig hefur Vatnajökull rýrnað um 8-10 metra frá 10. áratugnum. Að meðaltali hafa íslenskir jöklar misst um 9 gígatonn á ári, sem nemur um einum rúmkílómetra frá 1995. Orsakir þessa eru einkum hlýrri sumur, lengri leysingatíð, en sömuleiðis hlýrri vetur þar sem minna af úrkomu fellur sem snjór en áður.

Sömuleiðis hefur áhrif á afkomu jökla að sjórinn umhverfis landið er hlýrri en áður. Í þessu eru árssveiflur sem Helgi segir eðlilegar enda landið á mótum hlýrra og kaldra strauma sem séu kvikir og sveiflist í styrk.

Helgi sagði að jöklarnir hafi rýrnað hratt um 1920-1940 en síðan hafi dregið úr því. Nú rýrni þeir hins vegar hratt aftur. Upp úr 1995 hafi tekið að hlýna verulega og afkoma jöklanna orðið verri og verri.

Fyrirhugaður Vatnajökulsþjóðgarður verður í endanlegri mynd langstærsti þjóðgarður Evrópu og …
Fyrirhugaður Vatnajökulsþjóðgarður verður í endanlegri mynd langstærsti þjóðgarður Evrópu og einstakur að mati sérfræðinga hvað snertir jarðfræði og náttúrufar. Aðalheiður Inga Þorsteinsdóttir ræðir við Sigríði Önnu Þórðardóttur umhverfisráðherra MYNDATEXTI: Færunestindar í Skaftafellsfjöllum. Áætlað er að tekjur af ferðaþjónustu í tengslum við Vatnajökulsþjóðgarð verði margfaldar á við kostnaðinn. mbl.is/Rax
Helgi Björnsson jöklafræðingur.
Helgi Björnsson jöklafræðingur. mbl.is/Rax
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert