Jón Ásgeir fær 466 tölvubréf

Jón Ásgeir Jóhannesson.
Jón Ásgeir Jóhannesson. mbl.is/Ómar

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur komist að þeirri niðurstöðu að sérstökum saksóknara beri að afhenda Jóni Ásgeiri Jóhannessyni 466 tölvubréf sem embættið lagði hald á. Þetta kemur fram á fréttavef Ríkisútvarpsins. Sérstakur saksóknari hefur sagt að gagnamagnið útheimti mikla vinnu af hálfu lögreglu sem beri skylda til að fara aftur yfir öll bréfin.

Í húsleitum sem gerðar voru vegna rannsóknar á málum Glitnis eftir bankahrun lagði Ólafur Þ. Hauksson, sérstakur saksóknari, m.a. hald á 466 tölvupósta sem fóru milli Lárusar Welding fyrrverandi forstjóra Glitnis og Jóns Ásgeirs, sem var einn aðaleigandi bankans á tímabilinu apríl 2007 - september 2008.

Gestur Jónsson, verjandi Jóns Ásgeirs, krafðist þess að fá afhent afrit af öllum póstunum 466 og sagðist hann telja að það ætti ekki að taka nema stutta stund að prenta póstana út eða hlaða inn á minniskubb

Sérstakur saksóknari sagði hins vegar að þeir póstar sem lagðir hafa verið fram séu þeir sem taldir eru hafa þýðingu fyrir málið. Verjandi Jóns Ásgeirs hafi þegar fengið þá pósta, en vilji líka fá þá sem lögregla ákvað að gera ekki að gögnum málsins

Sérstakur saksóknari sagði að ef afhenda ætti allt gagnamagnið útheimti það vinnu af hálfu lögreglu sem bæri þá skylda til að fara aftur yfir öll bréfin 466 og meta hvort þar væru einhver einkamál.

Hvorki náðist í Ólaf Þór Hauksson eða Gest Jónsson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert