Tillagan óásættanleg að mati Íra

Simon Coveney, sjávarútvegsráðherra Írlands.
Simon Coveney, sjávarútvegsráðherra Írlands. Wikipedia/Anthony Patterson

Sjávarútvegsráðherra Írlands, Simon Coveney, lagðist gegn tillögu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins að lausn makríldeilunnar á fundi sjávarútvegsráðherra sambandsins í Lúxemburg í dag. Sagði hann tillöguna óásættanlega fyrir Íra en hún gengur út á að Íslendingum verði boðin 11,9% árlegs makrílkvóta og Færeyingum 12%. Coveney sagði tillöguna hvorki sanngjarna né réttlætanlega og að framkvæmdastjórninni bæri að standa vörð um hagsmuni Írlands í stað þess að verðlauna Íslendinga og Færeyinga. Íslensk stjórnvöld hafa farið fram á um 16-17% makrílkvótans.

Fram kemur á fréttavef írska ríkisútvarpsins RTÉ í dag að Coveney hefði kallað eftir því að tillagan yrði endurskoðuð. Hann hafnaði ennfremur hugmyndum um að veita íslenskum skipum aðgang að lögsögu Evrópusambandsins til makrílveiða í tengslum við mögulegt samkomulag og lagði sömuleiðis áherslu á að ef samið yrði þyrfti það að vera með aðkomu Norðmanna þannig að tryggt væri að þeir deildu íþyngjandi áhrifum þess.

Vill samning en ekki hvað sem hann kostar

Coveney sagði ennfremur að írsk stjórnvöld vildu að samið yrði um lausn makríldeilunnar en þau myndu ekki samþykkja lendingu málsins hvað sem það kostaði. Hann sagði í samtali við RTÉ að hann hefði fundað með Mariu Damanaki, sjávarútvegsstjóra Evrópusambandsins í dag og kynnt henni afstöðu Írlands. Damanaki myndi uppfæra tillögu sína í ljósi umræðnanna í dag fyrir fund strandríkjanna í London næstkomandi miðvikudag þar sem reynt verður að finna lausn á deilunni. Mögulegur samningur yrði síðan borinn undir sjávarútvegsráðherra sambandsins.

Ráðherrann segir í samtali við fréttavef írska dagblaðsins Irish Times í dag að hann hafi rætt við sjávarútvegsráðherra annarra ríkja innan Evrópusambandsins um málið í dag og þar á meðal Bretlands, Spánar og Skotlands og reynt að afla stuðnings við afstöðu Írlands. Hann segir að írsk stjórnvöld ætli að beita sér af krafti á fundinum í London og tryggja að mögulegur samningur tryggi hagsmuni ríkja Evrópusambandsins eins og Írlands sem hafi stundað makrílveiðar undanfarna fjóra áratugi. Fram kemur að bresk stjórnvöld hafi hins vegar verið hikandi í málinu vegna mikilvægis innflutts frosins fisks frá Íslandi til Bretlands.

Lochhead vill koma fram fyrir hönd Bretlands

Sjávarútvegsráðherra Skotlands, Richard Lochhead, hefur farið fram á það við bresk stjórnvöld að hann fari fyrir Bretlandi í samningaviðræðum sem framundan eru á vettvangi Evrópusambandsins um sjávarútvegsmál í ljósi reynsluleysis nýs sjávarútvegsráðherra Bretlands, George Eustice, sem tók við embætti við breytingar á bresku ríkisstjórninni í síðustu viku. Frá þessu var greint á fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC í gær.

Meðal þeirra mála sem semja þarf um er makríldeilan en eins og áður segir verður fundað um lausn deilunnar á miðvikudaginn í næstu viku. Náist samningar á fundinum verður hann lagður fyrir ráðherraráð Evrópusambandsins í sjávarútvegsmálum þar sem sæti eiga sjávarútvegsráðherrar ríkja sambandsins. Verði fallist á ósk Lochheads verður hann væntanlega fulltrúi Bretlands á þeim vettvangi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert