Þrælkun finnst líka á Íslandi

Í byggingarvinnu.
Í byggingarvinnu. mbl.is/Árni Torfason

Ísland er meðal þeirra tíu landa í heiminum þar sem tíðni nútímaþrælahalds er hvað minnst. Í skýrslu Walk Free Foundation um þrælkun í heiminum í dag kemur þó fram að þrátt fyrir að Ísland sé eitt auðugasta land heims finnist þar dæmi um þrælkun.

Samkvæmt skýrslunni, sem kynnt var í síðustu viku, hafa komið upp dæmi á Íslandi á undanförnum árum sem flokka megi sem nútímaþrælkun. Flest tengjast málin kynlífsiðnaði en einnig byggingariðnaði og ferðaþjónustu. Þá séu dæmi um nauðungarhjónabönd og fólk í vinnuþrælkun á heimilum. Einnig er fjallað um nokkur mansalsmál sem upp hafa komið á Íslandi á síðustu árum.

Stofnunin skilgreinir þrælkun m.a. sem nauðgunarhjónabönd, sölu og ofbeldi gegn börnum og mansal auk vinnuþrælkunar. Hún segir að nútímaþrælahald einkennist af öllu því sama og á öldum áður. Í slíkum aðstæðum er fólki oftast stjórnað með ofbeldi. Það er blekkt eða þvingað til starfa eða í aðstæður þar sem það er misnotað fyrir peninga. Það fær ekki greitt fyrir vinnu sína, eða mjög takmarkað og það getur ekki komið sér út úr aðstæðunum þó að það kjósi það.

Í kafla skýrslunnar þar sem fjallað er um Ísland segir m.a. að nokkrar óléttar konur hafi verið fluttar mansali hingað til lands til að starfa í kynlífsiðnaðnum. Slíkt sé einnig þekkt í öðrum löndum Skandínavíu. Allar hafi þær verið frá Afríkuríkjum og hafi komið hingað frá Evrópulöndum. Skýrsluhöfundar vitna m.a. í heimildarmann í þessu sambandi og fréttir DV um mál þessu tengt.

Þá segir að Ísland hafi gengið í gegnum efnahagslegar hremmingar en óljóst sé hvort það hafi haft einhver áhrif á þrælkun í landinu.

Frétt mbl.is: 30 milljónir þræla í heiminum


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert