Lögregluríki bar réttarríkið ofurliði

Ómar Ragnarsson var fjarlægður af lögreglu í morgun.
Ómar Ragnarsson var fjarlægður af lögreglu í morgun. mbl.is/Júlíus

„Í dag fengum við að kynnast því þegar lögregluríki ber réttarríkið ofurliði,“ segir Ómar Ragnarsson á bloggsíðu sinni í kvöld, en hann var á meðal mótmælenda sem lögreglan handtók í Garðabæ í dag.

„Vélaherdeildir vaða í „blitzkrieg“ eða leifturstríð eftir öllu fyrirhuguðu vegstæði, en afleiðingin af því er sú að valdið verður eins miklum óafturkræfum spjöllum á hrauninu á eins skömmum tíma og hægt er, en með því er hraunað yfir það að Hæstiréttur Íslands er með málið til umfjöllunar og úrskurðar,“ segir Ómar ennfremur.

Hann gagnrýnir Vegagerðina fyrir að halda því ítrekað fram að Álftanesvegur sé á meðal hættulegustu vega á Íslandi, en Ómar segir að Vegagerðin fari með ósannindi.

„Hvenær ætlar hún að kannast við sínar eigin tölur um slysatíðni á Álftanesvegi? Nema ætlunin sé sú að með því að endurtaka sömu rangfærsluna nógu oft fáist fólk til að trúa henni. Samkvæmt tölum hennar sjálfrar um 44 sambærilega vegakafla á höfuðborgarsvæðinu er Álftanesvegur 22. í röðinni. Sem þýðir að 21 kafli er með hærri slysatíðni,“ skrifar Ómar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert