Samstaða um að Landspítalinn fái meira

Helgi Hjörvar og Guðlaugur Þór Þórðarson ræddu málin við Sigmar …
Helgi Hjörvar og Guðlaugur Þór Þórðarson ræddu málin við Sigmar Guðmundsson í Kastljósinu í kvöld. Skjáskot/Kastljós

Eindreginn vilji er fyrir því meðal þingmanna að grípa til aðgerða þannig að Landspítalinn fá viðbótarframlag á fjárlögum næsta árs, samkvæmt því sem fram kom í máli Guðlaugs Þórs Þórðarsonar þingmanns Sjálfstæðisflokksins og Helga Hjörvar þingmanns Samfylkingarinnar í Kastljósi í kvöld.

Guðlaugur Þór, sem er varaformaður fjárlaganefndar, benti á að allir stjórnmálamenn virðist nú tala á svipuðum nótum hvað Landspítalann varðar. Hann sagðist vilja forgangsraða í þágu heilbrigðiskerfisins, en sagði þó að stóra málið væri að ná hallalausum fjárlögum.

Helgi Hjörvar sagði mikilvægt að allir flokkar kæmu til borðsins opnir fyrir öllum möguleikum. Stjórnarandstaðan þurfi að vera opin fyrir frekari niðurskurði annars staðar, og stjórnarflokkarnir opnir fyrir að að afturkalla skattalækkanir, til að ná markmiðinu.

Dalandi fylgi vegna óvissunnar

Helgi og Guðlaugur ræddu einnig dalandi fylgi ríkisstjórnarflokkanna, en Sjálfstæðisflokkurinn mælist í nýjustu könnun MMR með 26,5% fylgi og Framsóknarflokkur með 15,4% fylgi.

Helgi Hjörvar sagði að Framsóknarmenn hafi fengið mikið fylgi í kosningum út á skýr og afgerandi loforð sem þeir eigi eftir að efna. Hann sagðist vona að staðið yrði við yfirlýsingar um að aðgerðir til skuldaniðurfellinga verði boðaðar í nóvember og bætti við að þá ætti fylgistapið væntanlega að ganga til baka hjá þeim. 

Hann sagðist sömuleiðis telja að Sjálfstæðisflokkurinn mælist með minna fylgi vegna almennrar óánægju með fjárlagafrumvarpið, fyrsta stóra mál nýrrar ríkisstjórnar. 

Guðlaugur Þór sagði á móti að það væri erfitt fyrir ríkisstjórnina að verða vinsæl. Ríkisstjórn sem ætli að taka á málunum eins og staðan er muni óhjákvæmilega fá yfir sig brimskafla. Hann benti á að fyrir kosningar hafi því verið haldið fram að fjárlögin 2013 yrðu hallalaus en nú 31 milljarða halli ljós.

Helgi sagðist telja það skilaboð frá kjósendum í skoðanakönnunum að óvissan hvað varðar skuldaniðurfellingar sé vond. Stjórnarflokkarnir ættu að taka þessum skilaboðum og eyða óvissunni.

Guðlaugur Þór sagði það ekki stórmál þótt sjónarmið Sjálfstæðismanna og Framsóknarmanna séu misjöfn um skuldaniðurfellingar og benti á að Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson séu þrátt fyrir það ekki í hár saman.

Hann sagði alla hafa það að markmiði að bæta stöðu heimilanna og sagðist vona að það hefði komist skýrt og einlægt á framfæri í tóni stjórnarflokkanna að allir vilji bæta stöðu þeirra sem skuldi mikið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert