Bað kærustunnar í Silfru

Breskur karlmaður kom sinni heittelskuðu svo sannarlega á óvart þegar þau voru stödd hér á landi nýlega. Parið var á ferðalagi um Ísland og komu þau meðal annars við í Silfru. Maðurinn er köfunarkennari, hafði hann kennt kærustu sinni að kafa og er köfun nú sameiginlegt áhugamál þeirra. Draumur þeirra var að kafa við flekaskilin í Silfru, rættist hann fyrir tveimur vikum síðan og gott betur.

„Maðurinn setti sig í samband við okkur fjórum mánuðum áður,“ segir Finni Aðalheiðarson, eigandi Scuba Iceland. Bað maðurinn fyrirtækið um aðstoð, en hann ætlaði að biðja kærustu sinnar í Silfru. Hafði hann meðferðis borða þar sem á stóð: Viltu giftast mér?

Að sögn Finna var lítið mál að aðstoða manninn og hafði starfsfólk Scuba Iceland gaman af. Sagði konan já í kafi og komu þau afar hamingjusöm upp úr Silfru. Eftir köfunina í Silfru hélt hið nýtrúlofaða par í tíu daga ferð um Ísland.

Er þetta í annað skipti sem fyrirtækið er beðið um að aðstoða viðskiptavini sína vegna trúlofunar hér á landi. Í fyrra skiptið voru það sænskir jarðfræðingar sem settu upp hringa við Silfru.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert