Flugvöllur í Vatnsmýri til 2022

Samkomulagið var undirritað af Jóni Gnarr, borgarstjóra, Hönnu Birnu Kristjánsdóttir, …
Samkomulagið var undirritað af Jóni Gnarr, borgarstjóra, Hönnu Birnu Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, forsætisráðherra og Björgólfi Jóhannssyni, forstjóra Icelandair Group. mbl.is/Rax

Fulltrúar ríkisins, Reykjavíkurborgar og Icelandair Group skrifuðu í dag undir samkomulag um innanlandsflug. Hæst ber að norður-suðurbraut Reykjavíkurflugvallar verður ekki fjarlægð 2016 eins og gert er ráð fyrir í aðalskipulagstillögu, heldur látin liggja óhreyfð til 2022, auk þess sem Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, mun leiða vinnu við að finna varanlegt stæði fyrir flugvöllinn á höfuðborgarsvæðinu.

Samkomulagið var undirritað af Jóni Gnarr, borgarstjóra, Hönnu Birnu Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, forsætisráðherra og Björgólfi Jóhannssyni, forstjóra Icelandair Group.

Hanna Birna sagði við undirritun samningsins að ríki og borg hafi undanfarið átt fundi um framtíð Reykjavíkurflugvallar. Hún sagði þetta stóra mál í íslensku samfélagi yrði að leysa farsællega og í sem bestri sátt.

Flugvöllurinn áfram á höfuðborgasvæðinu

Hún sagði höfuðborgarsvæðið vera fyrsta kost þegar valið yrði hvar flugvöllurinn yrði til frambúðar og sagði Vatnsmýrina að sjálfsögðu koma til skoðunar í þeim efnum.

Jón Gnarr tók undir með Hönnu Birnu og að nú væri stigið mjög mikilvægt skref í þá átt að reyna að ná sátt um þetta mikla og flókna mál, sem væri líka gríðarmikið tilfinningamál.

„Það hafa allir skoðun á flugvellinum í Reykjavík. Ég vona að þetta samkomulag sé fyrsta skrefið í átt að ásættanlegri framtíðarlausn, sem allir ættu að geta sætt sig við,“ sagði hann.

Dagur B. Eggertsson sagði það vera lykilatriði að þeir sem þekkja best til í flugi komi að þessu máli og að framtíðarhagsmunir borgarunnar séu líka undir. Hann sagði Reykjavíkurborg fallast á að leyfa norður-suðurbrautinni að vera áfram til 2022, gegn því að allir sem komi að málinum fari í alvörunni í það saman að leysa málið og finna framtíðarstaðsetningu fyrir völlinn, og ítrekaði að höfuðborgarsvæðið væri fyrsti kostur í þeim efnum.

Hann sagði miklu máli skipta að sú vinna sem núna fer af stað njóti traust, og fagnar að Ragna Árnadóttir hafi tekið að sér að leiða þá vinnu. Hann sagði greinilegt að ekki allir munu verða sammála um flugvöllinn. „Við erum að taka þetta mál upp úr skotgröfunum og setja það í lausnamiðaðan farveg,“ sagði Dagur

Björgólfur fagnar lengingu líftíma flugbrautarinnar og með því vallarins heilt yfir, því hann sagði völlinn ekki rekstrarhæfan án hennar. Hann benti á að Reykjavík hafi verið að vaxa mjög sem ferðamannaborg. Hluti af því sagði hann vera þá innviði sem eru í borginni, og að flugvöllurinn sé lykilhluti af því.

Sigmundur Davíð hafði ekki annað um málið að segja en „Drífum bara í þessu,“ og skrifaði undir samkomulagið. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert