Prestum hefur fækkað um 12%

mbl.is/Eggert

Þjóðkirkjan hefur brugðist við samdrætti í tekjum með því að fækka prestum um 17 eða um 12% og starfsfólki Biskupsstofu (að meðtöldu starfsfólki Kirkjumálasjóðs) um 7 stöðugildi eða um 21%.

Auk þess hefur rekstrarkostnaður verið dreginn saman, prófastsdæmi sameinuð og þeim fækkað úr 16 í 9 og námsleyfi hafa verið skert. Þá hafa eignir verið seldar sem eru óhagkvæmar í rekstri til að tryggja þjónustu kirkjunnar þrátt fyrir rýrnandi tekjustofna.

Þetta kemur fram í samantekt fjármálastjóra Biskupsstofu. Þar kemur fram að frá fjárlögum ársins 2008 til 2011 hafa sóknargjöld lækkað sem nemur 25% umfram fjárveitingar til stofnana innanríkisráðuneytisins. Ef tekið er mið af þróun fjárveitinga til stofnana innanríkisráðuneytisins nemur uppsöfnuð skerðing sóknargjaldanna frá árinu 2008-2013 um 2,3 milljörðum króna á verðlagi hvers árs.

Niðurskurður á kirkjujarðasamkomulaginu er um 21% miðað við forsendur í fjárlagafrumvarpi 2014 borið saman við óskertar greiðslur samkvæmt reiknilíkani 2014 byggðu á kirkjujarðasamkomulaginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert