Unglingar skoða samfélagsmiðla daglega

Snapchat er vinsælt meðal unglinga.
Snapchat er vinsælt meðal unglinga.

Meirihluti íslenskra barna og unglinga skoða samskiptasíður á netinu daglega, eða næstum daglega og því oftar sem þau eru eldri. Flest nota þau netið nokkrum sinnum á dag og hefur netnotkunin aukist umtalsvert frá árinu 2009. Foreldrar vanmeta notkunina á sumum sviðum, en ofmeta á öðrum.

Þetta eru niðurstöður nýrrar könnunar um netnotkun, sem var liður í vakningarátakinu SAFT um jákvæða tölvu- og nýmiðlanotkun barna og unglinga. Markmiðið er að afla upplýsinga um netnotkun unga fólksins og nýta þær upplýsingar til vitundarvakningar um möguleika netsins og örugga netnotkun.

90% unglinga daglega á samskiptasíðum

Niðurstöðurnar benda til þess að börn skoði samskiptasíður því meira eftir því sem þau eldast. Um 90% barna í 9. og 10. bekk skoða slíkar vefsíður daglega eða nær daglega, en í 4. bekk er hlutfallið rétt rúm 20%.

Um 42% barna og unglinga sögðust hafa sent skyndiskilaboð, t.d. á Snapchat, Facebook spjallinu eða á Skype. Þar hefur aldurinn einnig mikið að segja. Aðeins 1 af hverjum 5 börnum í 4. bekk segist senda skyndiskilaboð daglega eða næstum daglega og helmingur 4. bekkinga sendir aldrei skyndiskilaboð.

Þegar komið er á unglingastig grunnskóla er staðan önnur því þar fer hlutfall þeirra sem senda skyndiskilaboð daglega eða næstum daglega hæst upp í rúm 60% hjá börnum í 9. bekk.

Skoða fréttasíður meira en foreldrarnir halda

Þegar börnin eru saman svör foreldra og barna kemur í ljós að foreldrar vanmeta að sumu leyti netnotkun barna sinna, en ofmeta hana á öðrum sviðum. Í mörgum tilfellum er mat þeirra þó á pari við svör barnanna, samkvæmt niðurstöðum SAFT.

Til dæmis er mat foreldra á því hve mikið börnin horfi á myndbönd eða hlusta á tónlist, t.d. á Youtube, áþekk svörum barnanna. Eins virðast foreldrar hafa ágæta mynd af notkun samskiptasíðna.

Rúmlega 77% foreldra svöruðu því til að barnið þeirra skoði samskiptasíður á netinu, en 82% barna sögðust hafa skoðað samskiptasíður a.m.k. 1 sinni á sl. mánuði.

Meiri munur er á svörum foreldra og barna þegar kemur að þáttum eins og að skoða fréttasíður, því svör barna benda til þess að þau skoði fréttasíður í meira mæli en foreldrar þeirra telja.

Fleiri en áður fara nokkrum sinnum á netið á dag

Tæplega 67% íslenskra barna og unglinga sögðust nota netið nokkrum sinnum á dag og 14% einu sinni á dag. Þannig má segja að 81% íslenskra barna og unglinga í 4.- 10. bekk noti netið a.m.k. einu sinni á dag.

Þetta hlutfall hefur aukist töluvert frá því árið 2009 en þá sögðust 45,5% nota netið nokkrum sinnum á dag og samtals 66,4% a.m.k. einu sinni á dag. Tíðni netnotkunar eykst marktækt með aldri en 40% barna í 4. bekk segjast fara á netið nokkrum sinnum á dag á meðan sambærilegt hlutfall barna í 10. bekk er 88%.

Facebook er vinsælasta vefsíðan á Íslandi.
Facebook er vinsælasta vefsíðan á Íslandi. mbl.is/AFP
Twitter er einnig vinsæll samfélagsmiðill.
Twitter er einnig vinsæll samfélagsmiðill. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert