Vantar trúverðuga efnahagsstefnu

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Dauft er yfir íslensku efnahagslífi samkvæmt nýrri hagspá hagdeildar Alþýðusambands Íslands sem kynnt var á blaðamannafundi í dag. Þannig er gert ráð fyrir að hagvöxtur verði lítill næstu árin og dugi ekki til þess að vinna bug á atvinnuleysinu í landinu eða byggja upp þann kaupmátt sem launafólk hafi tapað í hruninu. Helsta ástæðan fyrir því hversu illa gangi að auka verðmætasköpun séu litlar fjárfestingar sem ætla megi að verði tæplega 13% af landsframleiðslu í ár sem sé næst lægsta hlutfall frá lýðveldisstofnun.

„Þeir flokkar sem standa að núverandi ríkisstjórn lögðu skiljanlega mikla áherslu á mikilvægi fjárfestinga í aðdraganda kosninga og mátti skilja á þeim að kapp yrði lagt á aukna fjárfestinga kæmust þeir til valda. Það eru því mikil vonbrigði að ekki virðist útlit fyrir nauðsynlega aukningu fjárfestinga á næstu árum og sú litla aukning sem er fyrirsjáanleg er vegna verkefna sem ákveðin voru í tíð fyrri ríkisstjórnar,“ segir í hagspánni. Aðgerðir nýrrar ríkisstjórnar hvað varðar fjárfestingar hafi einkum snúið að því að falla frá fjárfestingaáætlun fyrri stjórnar og afþakka tekjur af veiðigjaldi sem ætla hafi verið að standa undir henni.

„Slíkt yrði mikill ávinningur fyrir alla“

Efnahagsleg óvissa fylgi sömuleiðis nýrri ríkisstjórn og þá ekki síst vegna loforða um miklar aðgerðir í þágu skuldsettra heimila en útfærsla þeirra liggi ekki fyrir. „Þá hefur ríkisstjórnin sett aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu á ís og forsætisráðherra sagt að íslenska krónan verði gjaldmiðill á Íslandi í fyrirsjáanlegri framtíð. Ríkisstjórnin verður því að sýna með trúverðugum hætti hvernig hún sér fyrir sér stjórn peningamála til framtíðar, hvernig hún ætlar að losa um gjaldeyrishöftin og hvernig hún sér fyrir sér þróun gengis- og verðlags.“

Eftir þessu bíði aðilar vinnumarkaðarins en áhugi sé fyrir hendi bæði hjá verkalýðshreyfingunni og atvinnurekendum að sjá kjara- og efnahagsþróunina hér með hliðstæðum hætti og á hinum Norðurlöndunum þar sem áhersla sé lögð á gengis- og verðstöðugleika og að byggja upp kaupmátt í hægum en öruggum skrefum án þess að valda samkeppnisstöðu útflutningsatvinnuveganna skaða.

„Takist nýrri ríkisstjórn að leggja fram trúverðuga efnahagsstefnu sem tekur á þessum þáttum og ná um hana breiðri sátt eru líkur á að við getum byggt kjarasamninga á Íslandi á svipuðum gildum og frændur okkar á Norðurlöndunum. Slíkt yrði mikill ávinningur fyrir alla.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert