Endurskoðar ákvörðun um fækkun sjúkrabíla

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra.
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að endurskoða samning, sem velferðarráðuneytið gerði þann 19. desember í fyrra, sem kveður á um fækkun sjúkrabifreiða á landsbyggðinni úr 77 í 68. Samningurinn átti að vera kominn endanlega til framkvæmda í lok þessa árs.

Þetta kom fram í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag, en Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, beindi fyrirspurn til ráðherra um málið.

Kristján Þór segir það augljóst, í ljósi þeirra breytinga sem hafi orðið á fyrirkomulagi á íslenskri heilbrigðisþjónustu á síðustu þremur til fjórum árum að „við getum ekki ekki ef við viljum tryggja öryggi gengið þannig frá að þessi áform gangi eftir ótrufluð. Þar af leiðandi hef ákveðið að endurskoða þetta. Hef óskað eftir viðræðum við Rauða krossinn og þær viðræður eru hafnar og ég vænti þess að geta tilkynnt um nýja niðurstöðu innan tíðar,“ sagði ráðherra.

Hann benti á aðgerðir eins og samdrátt, niðurskurð og boðaðar aðgerðir eins og t.d. sameiningu heilbrigðisstofnana máli sínu til stuðnings. 

Kristján segir að samhliða þeim viðræðum sem eigi sér nú stað á milli ráðuneytisins og Rauða krossins, þá þurfi að endurskipuleggja sjúkraflutninga hér á landi. Málið snúist ekki einvörðungu um fjölda bíla heldur einnig um staðsetningu þeirra og þjálfun starfsmanna. 

„Sú vinna er sömuleiðis ekki hafin. Það er hluti af þessu verkefni og tekur einhvern tíma. Á meðan þetta yfirgangstímabil gengur yfir, ef svo má segja, þá verðum við að tryggja þessi grunnatriði sem lúta að flutningum fólks með álíka hætti og verið hefur undanfarin ár,“ sagði heilbrigðisráðherra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert