Íslenskan finnur sér alltaf leiðir

Sigurður Arent Jónsson er annar stofnenda Skraflfélags Íslands sem stendur …
Sigurður Arent Jónsson er annar stofnenda Skraflfélags Íslands sem stendur fyrir fyrsta Íslandsmótinu í Skrafli um helgina. mbl.is/Jakob Fannar

„Einhvern veginn gerist það nánast sjálfkrafa að þeir sem tala íslensku hafa mikinn áhuga á þessum leik, því fólk hefur svo svakalega sterkar skoðanir á því hvað sé góð íslenska, hvað sé leyfilegt og hvað ekki,“ segir Sigurður Arent Jónsson.

Hann er annar stofnandi Skraflfélags Íslands, sem heldur um helgina fyrsta Íslandsmótið í hinum vinsæla orðaleik Scrabble. Mótið er öllum opið og enn hægt að skrá sig til leiks.

Scrabble brúar kynslóðabilið

Skraflfélagið var stofnað í mars á þessu ári og hefur staðið fyrir reglulegum spilakvöldum á Kaffi Haítí. Aðspurður hver sé hinn dæmigerði skrafláhugamaður segir Sigurður að þeir séu af öllu tagi.

„Það kom okkur svolítið á óvart að það er alls konar fólk sem mætir á þessi kvöld. Við vorum til dæmis ekki viss um að okkur myndi takast að lokka til okkar eldra fólk, en það hefur komið okkur skemmtilega á óvart að fólk á öllum aldri mætir. Það er mikið af ungum háskólanemum, sumir mæta með börnin sín með sér og svo eru eldri spilarar líka.“

Á kvöldunum er reynt að stokka hópinn upp þannig að fólk spili á móti einhverjum sem það þekkir ekki og segir Sigurður að þarna myndist mikil stemning og skemmtilegur félagsskapur. Ekki þarf að vera þaulvanur skraflari til að taka þátt heldur eru allir velkomnir.

„Guðshnefinn“ og fleiri vafasamar samsetningar

Þeir sem skrafla kannast flestir við það að upp komi ágreiningsefni um hvort orð eða samsetning sé tæk. Sigurður segir að enn hafi aldrei soðið upp úr á spilakvöldum Skraflfélags Íslands.

„En það hefur alveg komist nálægt því þegar einhver hefur lagt niður orð sem öðrum finnst alveg ótækt. Það getur verið mikil spenna í loftinu milli keppenda.“

Hægt er að styðjast við hjálpargögn eins og íslenska orðabók og Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls. Misjafnt getur þó verið eftir útgáfum hvaða orð er að finna í orðabókum og Sigurður segir að til að útkljá deilumál hafi stundum þurft að fletta upp í fleiri en einni.

Sametningar orða eru þó hvað algengasta deilumálið, enda finnast þær ekki alltaf í orðabókum. Má sem dæmi nefna orð sem útnefnt var „vafasamasta lögnin“ á síðasta Scrabble-kvöldi félagsins. Það var orðið „guðshnefinn“ sem var á endanum samþykkt eftir að spilarinn vísaði í mark Diego Maradona, á HM í knattspyrnu 1986, máli sínu til stuðnings.

Undir málvitund dómara komið

Til að forða slagsmálum hefur Skraflfélag Íslands sett saman orðareglur til viðmiðunar, sem öllum er velkomið að styðjast við en þær er að finna á vefnum. Í orðareglunum er m.a. kveðið á um sértilvik, eins og leyfilegar og óleyfilegar upphrópanir. Þar segir einnig að ef samsett orð finnist ekki í orðabók sé það undir málvitund dómara komið hvort orðið er leyfilegt eða ekki.

„Það er snúið að setja alveg skýrar reglur því íslenskan er svo dugleg að finna sér nýjar leiðir,“ segir Sigurður. Því er ljóst að það verða alltaf grá svæði, en það er hluti af því sem gerir Scrabble svo skemmtilegt.

„Ég vonast til að það verði heilmikið karpað á mótinu um helgin og fólk fái útrás,“ segir Sigurður og hlær.

Allir velkomnir á mótið

Íslandsmótið fer fram á laugardag og sunnudag og hefst klukkan 11 báða dagana. Enn er hægt að skrá sig til leiks með því að senda póst á netfangið skraflfelagid@gmail.com, en skráningargjald er 2000 kr. Nánari upplýsingar um mótið má finna hér.

Öllum er velkomið að líta við og fylgjast með. Mótið fer fram á veitingastaðnum Happ í Höfðatorgi. „Við viljum endilega að fólk stoppi við og kíki inn, jafnvel þótt það sjái sér ekki fært að keppa,“ segir Sigurður.

Þá má benda áhugasömum á Facebook-síðu Skraflfélagsins, en þar geta myndast líflegar umræður um íslenskt mál auk þess sem fylgjendur fá að spreyta sig á þrautum og stafarugli.

Scrabble er vinsælt spil.
Scrabble er vinsælt spil.
Þungt hugsi yfir leiknum á spilakvöldi Skraflfélags Íslands á Kaffi …
Þungt hugsi yfir leiknum á spilakvöldi Skraflfélags Íslands á Kaffi Haítí. Ljósmynd/Skraflfélag Íslands
Fyrsta Íslandsmótið í Skrafli verður haldið nú um helgina.
Fyrsta Íslandsmótið í Skrafli verður haldið nú um helgina.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert