Kvennó vann Boxið

Fjöldi framhaldsskólanema lagði leið sína í Háskólann í Reykjavík um helgina til að etja kappi í hugvitssemi og verkviti. Fór svo að Kvennaskólinn í Reykjavík sigraði, Menntaskólinn í Reykjavík var í öðru sæti og Fjölbrautarskóli Suðurlands hafnaði í þriðja sæti.

Þetta var í þriðja skiptið sem Boxið – framkvæmdakeppni framhaldsskólanna var haldin en markmið keppninnar er að kynna og vekja áhuga á tækni, tækninámi og störfum í iðnaði. Átján lið tóku þátt í forkeppni og komust átta efstu liðin áfram. Liðin sem kepptu til úrslita í gær voru Menntaskólinn í Reykjavík, Verzlunarskóli Íslands, Tækniskólinn, Menntaskólinn við Sund, Fjölbrautaskóli Suðurlands, Flensborgarskóli, Kvennaskólinn og Menntaskólinn við Hamrahlíð.

Þess má geta að í ár voru sjö stúlkur í úrslitakeppninni en þær voru aðeins tvær í fyrra. Hvert lið var skipað fimm einstaklingum. 

Liðin fóru í gegnum þrautabraut með nokkrum stöðvum og fengu hálftíma til að leysa hverja þraut. Þrautirnar voru settar saman af fyrirtækjum úr ólíkum greinum iðnaðarins með aðstoð fræðimanna Háskólans í Reykjavík. Við mat á lausnum réð meðal annars tími, gæði lausnar og frumleiki.

Að keppninni standa Samtök iðnaðarins, Háskólinn í Reykjavík og Samband íslenskra framhaldsskólanema. Fyrirtækin sem komu að gerð þrautanna í ár eru Ístak, Marel, Skema, Járnsmiðja Óðins, Promens, TM Software og Marorka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert