Tillögurnar liggi fyrst fyrir

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ég vil segja almennt um þær leiðir sem eru í smíðum að ég hef ekki séð þær ennþá. Þær hafa ekki litið dagsins ljós og við þurfum að gefa þeim nefndum sem hafa verið að vinna að málinu tíma til þess að skila af sér.“

Þetta sagði Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, á Alþingi í dag í svari við fyrirspurn Helga Hjörvars, þingmanns Samfylkingarinnar, sem vildi vita hvort Bjarni teldi koma til greina að taka á skuldavanda heimilanna með því að Seðlabankinn gæfi út sérstaks skuldabréf í þeim efnum. Vísaði hann í þeim efnum í ummæli fulltrúa bankans á fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í dag þar sem komið hefði fram að slíkt væri ígildi peningaprentunar sem væri kolólöglegt og myndi setja lánshæfiseinkunn landsins í ruslflokk.

„Það eru auðvitað mikilvæg sanngirnisrök fyrir því að ganga lengra til móts við skuldug heimili í landinu. Það er mikilvægt að þær aðgerðir séu ekki þannig úr garði gerðar að þær komi í bakið á okkur með verðbólgu og hærri vöxtum,“ sagði hann ennfremur. Bjarni sagðist vilja forðast allt sem gæti aukið á skuldir ríkisins og sérstaklega ef það stefndi lánshæfi íslenska ríkisins. Verkefnið væri að vinna málin í hina áttina og bæta lánshæfið.

Varðandi skuldamál heimilanna sagðist Bjarni telja rétt að þær tillögur sem unnið væri að í þeim efnum lægju fyrir áður en tekin væri efnisleg umræða um þær.

Helgi Hjörvar, alþingismaður.
Helgi Hjörvar, alþingismaður.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert