Í þriðja sæti í heiminum

Skjáskot af vef Fantasydeildarinnar. Matthías er í þriðja sæti sem …
Skjáskot af vef Fantasydeildarinnar. Matthías er í þriðja sæti sem stendur.

Matthías Ásgeirsson er nú í þriðja sæti á heimsvísu í ímyndunarleiknum vinsæla, Fantasy Premier League. „Helgin gekk upp hjá mér. Ég valdi greinilega rétta fyrirliða.“

Í leiknum stilla menn upp liði sem samanstendur af liðsmönnum enskra úrvalsdeildarliða. Leikmennirnir fá stig eftir gengi þeirra í leikjum helgarinnar. „Fyrirliðinn“ sem Matthías talar um fær tvöföld stig fyrir umferðina.

„Það eru rúmar þrjár milljónir sem taka þátt í leiknum. Þetta sveiflast heilmikið, þannig að ég er bara að bíða eftir að hrynja niður.“ Fyrir umferð helgarinnar var Matthías í fimmtánda sæti, svo ljóst er að það er sveiflukennt á toppnum.

Matthías setti saman lið eftir að ákveðið var að stofna einkadeild á hans vinnustað. Þar tefla vinnufélagarnir fram sínum liðum og sá sem stendur efstur í lok mánaðar fær bjór í verðlaun. „Ég hef nokkrum sinnum byrjað áður en aldrei haldið út veturinn. Þegar þetta gengur svona þá hef ég aðeins spáð í þetta fyrir leikhelgi.“

Til mikils að vinna

Matthías hafði ekki kynnt sér hver verðlaunin yrðu ef hann ynni mótið á heimsvísu, en þegar að því var leitað kom í ljós að sá sem er efstur á heimsvísu um mánaðamót fái spjaldtölvu, Nike Incyte bolta og eintak af FIFA 14. Sá sem er efstur hvern fjórðung leiktímabilsins fær öllu veglegri verðlaun - ferð sér að kostnaðarlausu á leik í úrvalsdeildinni hjá hvaða liði sem er.

Stóri vinningurinn er enn veglegri, en hann er vikuferð og gisting fyrir tvo til Englands og miðar á tvo leiki í úrvalsdeildinni á tímabilinu 2014/2015. „Ég hafði bara ekkert pælt í því,“ segir Matthías.

„Það verður ekkert auðvelt að halda þetta út. Ég var fimmtándi fyrir helgi en er núna þriðji. Ég hef samt verið ofarlega síðustu vikur.“

Spurður að hver væri lykillinn að velgengni segir hann aðalatriði að velja heitustu fyrirliðana. „Ég hef verið að skipta á milli Aguero og Suarez og verið heppinn með leiki með þá. Það skiptir öllu máli. Svo þýðir ekkert að spá of mikið í þetta. Fyrir þessa helgi var ég rosalega djúpur og vildi fá Rooney inn þannig að ég losaði mig við Yaya Toure, sem var dýr, keypti ódýran í staðinn og skipti á Lukaku og Rooney. Ég hefði fengið nákvæmlega jafnmörg stig með þá tvo í liðinu og ég fékk fyrir Rooney,“ segir Matthías og hló.

„Maður spáir samt aðeins í þetta fyrir hverja helgi og fylgist kannski aðeins öðruvísi með leikjunum heldur en áður. Þannig horfir maður á leiki sem maður myndi aldrei horfa á annars.“

Matthías Ásgeirsson
Matthías Ásgeirsson mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert